Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að greint verði frá upphæð bóta í boðuðu frumvarpi hennar, til handa þeim sem sýknaðir voru í fyrrahaust í Hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þegar frumvarpið verður kynnt. Í greinargerðinni komi fram hvernig sáttanefndin hafi séð fyrir sér að upphæðin skiptist milli fólksins. Upphæðin taki mið af íslenskum rétti en málið sé fordæmalaust.
Greinargerð ríkislögmanns í máli Guðjóns Skarphéðinssonar hefur verið harðlega gagnrýnd. Í greinargerðinni segir ríkislögmaður að Guðjón eigi ekki rétt á bótum þar sem hann hafi sjálfur átt sök á því að hann var ranglega dæmdur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Guðjón stefndi ríkinu í júní og krafðist bóta upp á 1,3 milljarða króna eftir að sáttaviðræður við ríkið sigldu í strand. Ríkislögmaður hafnar bótakröfum Guðjóns og krefst fullrar sýknu og að Guðjón greiði málskostnað.
Katrín sagði frá því í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi á morgun að hún hefði ekki lesið greinargerðina þegar hún kom inn í ráðuneyti hennar. Vinnulagið hafi verið það að framkvæmdavaldið sé upplýst um greinargerðir og það hafi hún verið upplýst um. „En það lá líka fyrir að ég taldi ekki að ég hefði beina aðkomu að því.“
Katrín segir að hún hafi sett af stað vinnu út frá áliti Umboðsmanns Alþingis þar sem bent er á að ráðherrar og ráðuneyti þeirra beri ábyrgð í svona málum.
Hefði ekki verið rétt að lesa greinargerðina í þessu máli, sem þú segir sjálf að sé fordæmalaust? „Að sjálfsögðu hefði það verið rétt og ég hefði haldið öðruvísi á þessum málum en það er bara þannig að maður gerir mistök og lærir af þeim,“ svarar Katrín. Hún sé núna búin að lesa greinargerðina og ætli að fara nánar yfir hana. Stóra verkefnið sé að klára frumvarpið og leggja það fram. Þar birtist vilji stjórnvalda til að ná samkomulagi.
Katrín vildi ekki svara því hvort hún sé sammála atriðum sem fram komi í greinargerðinni. Hún ætli að eiga fund með ríkislögmanni í næstu viku. Fyrr ætli hún ekki að tjá sig frekar um greinargerðina. Hennar vilji hafi allan tímann verið sá að ná sátt og samkomulagi í málinu.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður ræddi við forsætisráðherra fyrr í dag. Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.