Unnið er að því að reisa nýja göngubrú yfir Jökulsá í Lóni í stað þeirrar sem eyðilagðist í foráttuveðri um áramótin. Það var hins vegar ekki auðvelt fyrir brúarvinnuflokk Vegagerðarinnar í vikunni að koma efni og tækjum langar vegleysur að þessum afskekkta stað.

Jón Björgvinsson í Lóni:

Landvörðurinn í Lóni, Guðmundur Árnason, var að vonum áhyggjufullur þegar hann virti fyrir sér brúarskemmdirnar í fyrsta sinn í liðinni viku. Guðmundur segir brúna nauðsynlega svo hægt sé að komast um göngusvæðið í Lónsöræfum. 

 „Allt annað er ávísun á það að fólk fari að reyna stikla yfir ána og hún er lífshættuleg á sumrin og algjörlega óvæð. Það væri einfalt að segja íslenskum ferðamönnum frá þessu en hingað koma líka göngumenn að utan,“ segir Guðmundur. Hann telur líklegt að erlendir ferðamenn myndu ekki snúa við heldur reyna við ána. „Þannig að það er gríðarlega hættulegt að hafa ána óbrúaða vegna þess að þetta er þekkt gönguleið.“

Færðin háð því að lítið sé í ánni

Hjá Vegagerðinni í Höfn var ljóst að smíði nýrrar göngubrúar á þessum veglausa og afskekkta stað yrði töluvert flókin. Reynir Gunnarsson rekstrarstjóri Vegagerðarinnar segir ekki bílfært að brúarstæðinu og því nauðsynlegt að fara inn Jökulsána og inn eftir Jökulsárgljúfri með efni á trukkum og gröfum. Færðin sé svo háð því að lítið sé í ánni. 

Fyrir tæpum hálfum mánuði fór Jón Bragason hjá Ferðafélagi Austur-Skaftfellinga í könnunarleiðangur inn eftir Jökulsárgljúfri. Áin reyndist þá of vatnsmikil til að fært væri upp eftir henni með tæki til brúargerðar. Það var því ekki fyrr en eftir kólnandi veður í liðinni viku sem ákveðið var að reyna að koma gröfu upp eftir Jökulsá í Lóni. 

Fjörutíu sinnum yfir Jökulsá til að hefja framkvæmdir

Haukur Gíslason verktaki segir að verið sé að gera fært til að koma vistum inn eftir. Vatnið hafi minnkað og vinnan gangi vonum framar. Á myndskeiðinu má sjá drekkhlaðna 30 tonna búkollu, eins og þessir liðbílar eru nefndir, keyra yfir ána. Reynir Gunnarsson rekstrarstjóri Vegagerðarinnar segir að fylgjast þurfi vel með veðurspánni svo hægt sé að koma í veg fyrir að búkollan og grafan festist á þarna fram á næsta vetur. 

Til að komast að brúarstæðinu við Kollumúla þurfti að fara 15 kílómetra stórgrýtta leið og þræða sig 40 sinnum yfir Jökulsá til að hefja framkvæmdir við nýju göngubrúna. Við Jökulsá var fyrst strengdur kláfur í lok 10. aldar og síðan göngubrýr í tvígang. Í upphafi til að koma fé á afrétt og því var bæði göngumönnum og ekki síður gangnamönnum umhugað að fá nýja brú fyrir sumarið. „Það er ástæðan fyrir því að verið er að endurbyggja brúna í dag. Bæði eru bændur sem nota hana til uppreksturs inn á Heiðarlund og svo er þetta mjög mikilvægt fyrir ferða- og göngufólk sem er á ferðinni um Lónsöræfin,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson forsöðumaður hönnunardeildar. 

Tuttugu og fjögurra milljón króna göngubrú

Aron Bjarnason deildarstjóri viðhalds brúa og varnargarða segir vonir standa til að klára brúna í síðasta lagi 15. júní. „Við vonumst til að vera búnir áður en það fer að vaxa í áni.“ Með nýrri og sterkari 24 milljón króna göngubrú yfir Jökulsá í Lóni opnast bæði mönnum og skepnum þessi einstæða náttúruperla á ný. 

Vegna vatnavaxta eru nú stórvirk tæki innilokuð í Lóni en vonast er til að með kólnandi veðri á næstu dögum minnki straumurinn í Jökulsá svo hægt sé að koma þeim til byggða fyrir sumarið.