Ég vona bara að húsin standi ekki tóm, segir íbúi í Dalabyggð. Starfsemi ungmennabúða á Laugum í Sælingsdal til fjórtán ára lýkur í vikunni þar sem sveitarfélagið ætlar að selja húsnæðið. 25 þúsund níundu bekkingar hafa sótt ungmennabúðirnar á Laugum.
Flytja frá Laugum á Laugarvatn
Síðustu níundu bekkingarnir dvelja nú í Ungmenna- og tómstundabúðunum á Laugum í Sælingsdal eftir fjórtán ára starfsemi - enda breytingar í vændum. „Við erum að flytja héðan úr Sælingsdal á Laugarvatn,“ segir Jörgen Nilsson, frístundaleiðbeinandi í Ungmenna- og tómstundabúðunum á Laugum.
Selja byggingarnar
Dalabyggð ætlar að selja byggingarnar á Laugum og því fá búðirnar ekki langtímaleigusamning. „Starfsemi eins og starfsemi ungmennabúðanna er ekki starfsemi sem er á hendi sveitarfélagsins þannig að við viljum að selja þetta til þess að þarna komi aðilar sem eru þá sjálfir með starfsemi í þessum eignum. Það er það sem okkur finnst eðlilegast,“ segir Kristján Sturluson, sveitarstjóri í Dalabyggð.
Óttast að byggingar standi auðar
Síðasta vetur barst tilboð í mannvirki, helming jarðar og jarðhitaréttindi Lauga og jörð Sælingsdalstungu en útfærsla sölunnar olli deilum. Nú eru aðeins eignir Lauga og lóðir undir þeim til sölu en ekki búið að auglýsa á ný. „Ég bara vona að húsin verði bara ekki fyrir neitt, standi tóm. Þetta er glæsilegt svæði. Og bara geggjaður staður,“ segir Rebecca Cathrine Ostenfe, sem rekur dýragarðinn á Hólum.
Brotthvarf slæmt fyrir dýragarð
Rebecca tekur á móti nemendum ungmennabúðanna í dýragarðinum að Hólum í hverri viku og segir muna um það á vetrum - enda ferðamannastraumurinn ekki jafn mikill í Dölunum og víða annars staðar á landinu. „Mér finnst þetta bara mjög sorglegt. Og skelfilegt vegna þess að allt þetta unga fólk kemur hingað í Dalabyggð og sjáum hvað við höfum upp á að bjóða og nú eru þau bara farnir,“ segir Rebecca Cathrine Ostenfe.
Flutningunum fylgir tregi
Jörgen segir að flutningunum fylgi tregi, hann hefði viljað vera lengur á Laugum enda henti staðsetningin vel. „Fjórtán ár hérna á staðnum þá, meira en tuttugu og fimm þúsund unglingar, sem hafa sett spor sín á mann. Þetta verður erfiður föstudagur þegar síðasti hópurinn kveður,“ segir Jörgen.