Það er á stundum „einhver bresk natúralísk ofgnótt og smásmygli“ hjá leikstjóra Brúðkaups Fígarós, segir María Kristjánsdóttir leikhúsgagnrýnandi. En ungar söngkonur sýningarinnar, Eyrún Unnarsdóttir og Karin Björg Thorbjörnsdóttir lofa góðu.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Vinkona mín ein vill leggja niður Þjóðleikhúsið og breyta því í óperuhús. En ég verð að hryggja hana með því að stóra sviðið í þjóðleikhúsinu er vissulega hentugra fyrir leik en Eldborgin en hljómburður fyrir hljómsveitir sýnu verri. Það opinberaðist mér á laugardaginn var á frumsýningu á Brúðkaupi Figarós eftir Wolfgang Amadeus Mozart.
Þessa ærslafullu gamanóperu eða opera buffa samdi Mozart árið 1786 við libretto Ítalans Lorenzo da Ponte er byggði það á byltingarsinnuðu leikriti frakkans Pierre Beaumarchais en útvatnaði nokkuð. Þar er ekki í aðalhlutverkum yfirstéttin heldur alþýðufólk , þjónninn Figaro og þjónustustúlkan Susanna á brúðkaupsdegi sínum. En þau eru þjónar spænska greifans Almaviva. Hann hyggst nota vald sitt og stöðu til að komast yfir Súsönnu fyrir brúðkaupsnóttina. En komið er í veg fyrir ráðabrugg hans með ýmsum farsakenndum klækjum og brögðum þar sem afbrýðisemi, framhjáhald og kynorka koma einnig við sögu. Greifinn er auðvitað að lokum afhjúpaður og allt fer vel.
Í kynningu á sýningunni er sú ástæða gefin fyrir því að óperan er sýnd í Þjóðleikhúsinu að verið sé að minnast 40 ára afmælis stofnunarinnar „Íslenska óperan“ – en fæðingardeild óperuflutnings á Íslandi var auðvitað Þjóðleikhúsið. Efasemdarmenn taka öllum slíkum yfirlýsingum af tortryggni og mig grunar að leikstjórinn John Ramster hafi ekki talið sig geta sett Brúðkaupið upp í Eldborgarsalnum. Hann hafi sagt: „Ég verð að hafa hringsvið!“ Því sé sýningin á fjölum Þjóðleikhússins.
Og hringsviðið er sko notað í þessari sýningu. Leikmyndar- og búningahönnuðurinn Bridget Kimak raðar garði og ótal, ótal vistarverum inni og úti í höll greifans á hringinn. Hallandi pallar, tröppur eru þar og nauðsynlegar dyr farsans sem eru einnig notaðar skemmtilega til að opna sýn inn í önnur rými, aðra atburði. Og framvindan rennur liðlega fram í þessari leikmynd. Allt er þar lýst í margvíslegum pastellitum, sumt fallega skýrt og hreint fyrir augað annað kraðakslegt og hreinlega ljótt fyrir minn smekk , svo sem herbergi þeirra Fígarós og Susönnu. Þá eru sum rýmin nokkuð þröng fyrir kórinn. Hver og einn búningur virðist vera unninn af mikilli nákvæmni, jafnvel kórfélaga. Períóda verksins er í búningi greifynjunnar – hjá öðrum er tíminn ekki eins ljós eða afstæður. Búningar kórsins eru stundum leiðinlega litskrúðugir í myndinni en hárkolla (hver bjó til hárkollurnar?) og krínólina greifynjunnar er ákaflega flott og leikvæn, yfirleitt er skemmtilegt hve hugvitsamlega er leikið með búninga og höfuðföt.
Leikstjórinn, sem nýtur aðstoðar Katrínar Gunnarsdóttur í kóreógrafíunni, er góður persónuleikstjóri. Og aldrei þessu vant sýnir hver einasti söngvari í hreyfingum og látæði ágæta leikhæfileika sem er sérstaklega aðdáunarvert því að öllu erfiðara er að fást við gamanleik en drama, hvað þá verk sem krefst annars eins hraða og léttleika og þetta. Andrej Zhilikovsky sem greifinn virtist þó í einhverri fýlu að minnsta kosti hef ég séð hann betri í þessu hlutverki, hann bætti það þó upp í söngnum. Andri Björn Róbertsson sem Figaró, Þóra Einarsdóttir sem Súsanna, Harpa Ósk Björnsdóttir sem Barbarina, Eyrún Unnarsdóttir sem greifynjan, Davíð Ólafsson sem Bartolo og Valdemar Hilmarsson sem Antonio skapa öll minnistæðar persónur, en Hanna Dóra Sturludóttir sem Marcellina , Sveinn Dúi Hjörleifsson sem don Basilo, Eyjólfur Eyjólfsson sem don Curzo sýna mestu kómísku tilþrifin og stjarna kvöldsins er hæfileikabúntið Karin Björg Torbjörnsdóttir sem leikur og syngur hinn ástaróða ungling Cherubino af mikill list.
Í persónugalleríið bætir leikstjórinn við fjórum þöglum Zanní-um sem oft mynda fallegar myndir þegar þeir aðstoða, fylgjast með og jafnvel túlka á sinn hátt það sem er að gerast á sviðinu. Zanníinn á rætur sínar að rekja til Commedia dell‘arte, eins og auðvitað fleiri persónur óperunnar. Zanni var þar einn, þjónn, fulltrúi þeirra uppflosnuðu bænda frá Bergamo sem á 17. öld fylltu borgir Ítalíu. Kannski eiga þeir fjórir ekki aðeins að liðka til með framvindunni heldur vill Ramster þar undirstrika hinn upphaflega byltingarsinnaða tilgang leikverksins, kannski minna okkur á flóttamenn. Þó er það sennilega full langsótt hjá mér, því að í heildarsvipnum dregur leikstjórinn fremur úr róttækninni. Það er á stundum einhver bresk natúralísk ofgnótt og smásmygli hjá honum og leikmyndateiknaranum eins og þau vilji koma að öllu sem þau kunna. Það vinnur því miður gegn skýrleika hugans þegar hann leitar að sögnum í þessari sýningu og dregur athygli frá ýmsum hápunktum. En hvað er það hjá þessum fantagóða leik, söng, tónlistarflutningi og gleðinni yfir að sjá og heyra í fyrsta sinni söngkonur eins og Eyrúnu og Karinu Björgu. Framtíðin virðist björt.