Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, fjallar um grænlensku skáldsöguna Homo Sapína, í þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur. Hún segir hana djarfa formtilraun og að höfundi liggi mikið á hjarta.
Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:
Homo Sapína, grænlensk bók um ástir lesbía og homma, er ekki alveg það sem er í öllum bókahillum á sárfínum menningarheimilum (frekar en hinsegin bókmenntir almennt ef út í það er farið). Höfundurinn er Niviaq Korneliussen, fædd 1990, og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015 fyrir þessa bók, svei mér þá ef hún er ekki með yngstu kandidötum. Hún situr sjálf fyrir á bókarkápu, nakin að borða banana og lætur sér fátt um finnast. Bókin fjallar um fimm unga Grænlendinga í Nuuk, krísur þeirra og kynusla, ástina og tilvistarvandann. Ögrandi efni, bókarkápan er storkandi og titillinn bæði kaldhæðinn og femínískur; „sapína“ snýr hressilega upp á „sapiens“, hið hefðbundna tegundarheiti manneskjunnar í tvíhyggjulegu og merkimiðuðu regluveldi hins vestræna heims, enda er hægt að vera manneskja á svo margan hátt.
Líf fimmmenninganna fléttast saman á ýmsa vegu enda þekkjast allir í bænum, allir eru einmana og leita að ástinni sem er ansi snúið í fordómafullu samfélagi þar sem orðið „losti“ er ekki einu sinni til. Sjónarhornið er hjá einni persónu í hverjum kafla. Fyrst hjá Fíu sem er hundóánægð með manni sínum og uppgötvar lesbískar hneigðir sínar þegar hún kynnist Söru; dæmigerð frásögn um að koma út úr skápnum og sætta sig við kynhneigð sína. Inuk er bróðir Fíu, hommi sem er útskúfað úr samfélaginu á Grænlandi, á milli systkinanna fara innileg bréf. Arnaq var misnotuð af föður sínum, hún tollir hvergi í vinnu eða námi en deyfir sig með kynlífi, áfengi og dópi og stefnir rakleiðis til helvítis. Ivik er kona í karlmannslíkama, hún hefur viðbjóð á líkama sínum og höndlar ekki ástina, hún býr með Söru hinni fögru sem berst við niðurrifshugsanir og þunglyndi en er í lokin viðstödd fæðingu systurdóttur sinnar og fær við það trú á lífið. Í lokin leikur Sara grænlenska tónlist á gítar, laus við hömlur og allt sem hefur íþyngt henni og ástin blómstrar.
Um leið og hver persóna fær sitt svið eða sinn kafla, á hún líka sitt lag sem kaflinn heitir eftir og hún vitnar stöðugt í, lagið túlkar hennar karakter og tengir við veröld afþreyingar og internets. Viðfangsefni sögunnar er ekki bara átök og þroski hverrar persónu fyrir sig heldur rambar samfélagið á barmi glötunar og krísur um kynvitund og þjóðerni bæta ekki úr skák. Inuk (nafnið merkir sá sem er Inúíti) er sú persóna sem helst tekst á við samfélag sitt og sjálfsmynd en í bréfum sínum til Fíu er hann uppfullur af hommahatri, skilgreinir í örvæntingu staðalmyndina af dæmigerðum Grænlendingi og lýsir sömuleiðis kreppunni eða komplexunum sem felast í því að vera eiginlega hvorki Grænlendingur né Dani. „All I want is to be home“ segir í einkennislagi hans með Foo Fighters.
Textinn er að mestu talmál, óheflaður, brotakenndur og úr ýmsum áttum; bréf og dagbækur, sms, ljóðlínur, lagatextar, myllumerki og frasar á ensku sem er væntanlega að verða handhægt tungumál unga fólksins á Grænlandi, rétt eins og hér. Skilaboð sem sett eru upp með farsímaútliti færa lesanda nær persónunum sem þannig sogast oní þeirra einkamál en hversu langlíf slík ritlist er má einu gilda því það er núið og samtíminn sem eru undir í þessu verki. Korneliussen er auðvitað tvítyngd og þýddi bók sína sjálf úr grænlensku yfir á dönsku og er þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur á íslensku hin rennilegasta. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þýðingin sé hallari undir ritmál en frumtextinn, finnst eins og stundum örli á því.
Í frásagnarhætti og stíl Homo Sapína felst djörf formtilraun, eða kannski öllu heldur (ungæðisleg) kærulaus afstaða til forms, og bæði tónlistin sem vísað er til og tengist hverri persónu sérstaklega og grófkornóttar ljósmyndirnar hjálpa til við að birta alla þá skömm, þrá og bælingu sem knýja persónurnar áfram. Ljósmyndirnar hafa eitthvað alveg sérstakt við sig, það er þessi hráa nekt og loðni sígarettureykur, eins konar Ástu Sig svipur á þeim, sem bera með sér uppreisn og léttúð. Það er ung og reið kona sem heldur utan um þræði sögunnar og henni liggur mikið á hjarta.