Í fimmta pistli sínum um hlutskipti hins stritandi manns segir Snorri Páll frá landafræðingnum, rithöfundinum og anarkistanum Pétri Kropotkin sem hafnaði fráteknu sæti í fílabeinsturninum og tileinkaði líf sitt vísindunum.
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar:
Þann 10. febrúar árið 1921 hélt stærðarinnar fylking af stað frá litlu koti í sovéska bænum Dmitrov, rétt norðan við Moskvu. Í hópnum voru bæði heimamenn og gestir; þúsundir syrgjenda sem haldið höfðu í pílagrímsför til að votta látnum bæjarbúa virðingu sína og marseruðu nú undir svörtum fánum, með líkkistuna meðferðis, í átt að lestarstöð bæjarins. Þaðan ferðaðist kistan til Moskvu og var stillt upp í Húsi verkalýðsfélaganna, þar sem lífvana skrokkar Leníns, Stalíns og Brezhnevs voru síðar meir hafðir til sýnis áður en þeim var komið fyrir í íburðarmiklum grafhýsum við Rauða torgið. Í kistunni lá Pétur Kropotkin, landfræðingur, rithöfundur og stjórnleysingi — anarkistinn áður þekktur sem prins — undirhersforingjasonur af ættum aristókrata og landeigenda langt aftur í aldir, sem ungur afsalaði sér áskapaðri nafnbótinni, hafnaði fráteknu sæti í fílabeinsturninum og tileinkaði líf sitt vísindunum, auk útbreiðslu hugsjónarinnar um mannfélög byggð á samhjálp í stað samkeppni.
Nú var hann látinn, 78 ára að aldri; og meðal gesta í líkfylgdinni að Novodevichy-grafreitnum — þar sem Kropotkin var grafinn þremur dögum eftir að kistan kom til höfuðborgarinnar — voru nokkrir fangelsaðir stjórnleysingjar sem Lenín veitti dagsleyfi úr tukthúsinu svo þeir mættu fylgja félaga sínum og fyrirmynd síðasta spölinn. Sagt er að atburðirnir, sem náðust á filmu, hafi falið í sér síðasta eiginlega andardrátt rússnesku anarkistahreyfingarinnar á meðan Sovétríkin voru og hétu; hún hafi fylgt hinum látna ofan í gröfina — djúpa, kalda og myrka.
Eftir áratuga langa útlegð meðal róttæklinga í Evrópu hafði Kropotkin snúið aftur til Rússlands í kjölfar febrúarbyltingarinnar 1917, þar sem honum var boðið að taka við menntamálaráðuneyti ríkisstjórnarinnar sem sitja átti til bráðabirgða fram að kosningum. En vísindamaðurinn — sem aðhylltist frjálslyndan, anarkískan kommúnisma, án aðkomu ríkisvalds, og varaði í ritum sínum við vaxandi stjórnlyndistilhneigingum innan alþjóðlegu sósíalistahreyfingarinnar — áleit ráðherrastólinn augljóslega ekki samrýmast stjórnmálaskoðunum sínum og lífsgildum. Takk fyrir, en nei, sagði hann skýrt — en hélt áfram í þá veiku von að byltingarandann mætti virkja í þágu láréttrar samfélagsgerðar hins hefðbundna anarkisma 19. og 20. aldarinnar.
Sú von tók skjótt að dofna, skömmu eftir októberbyltingu bolsévika sama ár. Þó stjórnleysingjar á borð við hina rússnesk-bandarísku Emmu Goldman og Alexander Berkman hafi til að byrja með lagt afl sitt á vogarskálar byltingarinnar varð þeim brátt ljóst að draumalandið væri að skipta um ham: verða að martröð sívaxandi skrifræðis, nauðungarvinnu og pólitískra ofsókna. Í bréfi til Leníns, örfáum vikum áður en Kropotkin lést, spurði anarkistinn marxistann hví verið væri að ýta byltingunni út að brúninni — í átt að eigin tortímingu — með atferli sem væri sósíalismanum síst af öllu eðlislægt, heldur til marks um eftirhreytur hins gamla skipulags: hins óhefta, takmarkalausa valds sem allt gleypir.
***
Í riti sínu, Baráttan um brauðið, sem kom út í París árið 1892, lýsir Kropotkin afrekum og erfiði hins siðmenntaða, sístritandi manns í gegnum árþúsundin: hann hefur „ræktað landið, ræst fram mýrarnar, rofið skógana, lagt vegi [...] smíðað margslunginn vélbúnað [...] og gert gufuaflið að þjóni sínum.“ Járnbrautalestirnar bruna um á blóði forfeðra okkar, segir hinn framfaraglaði anarkisti og minnir á að hver einasta spilda sem yrkt er í dag nærist á svita liðinna kynslóða. Moldin geymir grimma sögu þrældóms, óbærilegs strits og skelfilegra þjáninga.
Kropotkin segir:
Jarðvegurinn, sem áður bar aðeins grófgerðar jurtir, er í dag þakinn auðugri uppskeru. [...] Hinum villtu plöntum, sem ekkert höfðu að gefa annað en beisk ber eða óætar rætur, hafa kynslóðirnar umbreytt í hið ljúffengasta grænmeti eða tré hulin dýrindis ávöxtum. Þúsundir vega og járnbrauta rista jörðina og brjótast í gegnum fjöllin. Óp aflvélanna hljóma í ógreiðfærum gljúfrum Alpanna, Kákasus- og Himalajafjallanna. Árnar eru nú skipgengar; sjávarstrendurnar kortlagðar og aðgengilegar; manngerðar hafnir, grafnar fram með erfiðismunum og varðar fyrir ofsabræði hafsins, veita skipunum skjól. Borað hefur verið í berggrunninn og völundarhús neðanjarðarganga grafin út svo safna megi kolum og vinna steintegundir. Við vegamót hafa sprottið upp glæstar borgir, og innan marka þeirra hafa gersemar iðnaðar, vísinda og lista hlaðist upp.
„Þessa stórbrotnu arfleið,“ segir Kropotkin, „eigum við að þakka heilu kynslóðunum sem lifðu og létust í eymd, undirokaðar og grátt leiknar af húsbændum sínum, uppgefnar af stritinu.“
Guð er góður; hvers vegna er heimurinn illur? spyrja hinir skeptísku meðal trúaðra. Við erum rík; hvers vegna býr bróðurpartur okkar við fátækt? spyr Kropotkin, efasemdamaður af ættum hinna efnamiklu; spyr líkt og svo margir aðrir sem sett hafa fram kenningar um orsakir helsis, volæðis og kvalræðis mannsins — og hugmyndir að lausnum við heimsósómanum. „Hví [...] þessi óvissa um morgundaginn,“ spyr hann, „mitt í auðæfunum sem fortíðin hefur látið okkur í té, og þrátt fyrir hinar öflugu framleiðsluaðferðir sem tryggt gætu hverjum manni þægindi fyrir dálítið erfiði dag hvern?“ Hann hafnar hinum sósíalísku herópum um „réttinn til vinnu“ og að hver stritandi hönd skuli hljóta að launum afrakstur erfiðis síns — og krefst þess í stað réttar hvers og eins til velsældar. Við erum auðug, segir hann og bætir við í skildagatíð: allra auðugust af því sem myndi vinnast væru gjafir jarðarinnar og talentur mannsins nýttar í þágu allra.
***
Við erum rík, segir loftslagskvíðasjúklingur 21. aldarinnar. Allt of rík — drukknandi í ofgnótt og drasli; pólýlester, soja, plasti, leðri, feldi, fleski; roðandi marvaðann umvafin rafmagni; upp fyrir haus í ætu sorpi, glitrandi ávöxtum og sýklalyfjasprautuðu spiki; fyrir löngu sokkin ofan í sjálfshatrið — það undirstrikar sjálfhverfuna, segir hann; áhyggjurnar skipgengar, kvíðinn rækilega kortlagður, tími til kominn að endurheimta framræst votlendi ímyndunaraflsins. Við erum rík; hvers vegna búa þá svo ófáir við fátækt, eymd, ömurð, stríð, bölvað strit, þrældóm og þjáningu? spyr hann ráðþrota. Hví er það hlutskipti svo margra að púla, pæla og þræla — og fá jafngildi einskis í skiptum? Hvernig má þetta vera, mitt í uppsöfnuðu ríkidæmi aldanna, og þrátt fyrir þekkingarfjallið sem við borum okkur daglega í gegnum, vopnuð listunum vísindunum og tækninni — og þrátt fyrir allar þær margbrotnu hugmyndir um réttlátari skiptingu gæðanna sem ítrekað hafa sprottið upp á mótum hugsunar og skynjunar hins viti borna manns?
Spurningarnar elta manninn eins og skuggi; mun hann nokkurn tímann hlaupa þær af sér? Er hann fær um að losna undan hlutskipti sínu á meðan hann er ennþá mennskur — ekki orðinn vélgengur að fullu; á meðan hann er ennþá mannskepna — ekki orðinn að dýri á ný? Getur hann afneitað arfleið kynslóðanna, sem er — þegar allt kemur til alls — jafn íþyngjandi og hún virðist frelsandi? Mun nokkuð bíða bróðurparts tegundarinnar annað en að þrauka, lifa með þeirri einu vissu að einn góðan veðurdag — eða vondan — muni hann hverfa ofan í jörðina sem allt í sig gleypir, köld og svört, án lúðrablásturs og tilkomumikillar líkfylgdar, verða étinn og sameinist moldinni; og með honum myndir sem enginn sá, lög sem aldrei heyrðust, ljóð sem engin las, hugmyndir sem aldrei fengu hljómgrunn, voru aldrei skrásettar og urðu því aldrei til?
hvar maður sefur
ofar sveimar mávur
undir maðkur fletið étur
***
Um leið og lík Kropotkins var látið síga ofan í gröfina settist tindrandi vetrarsólin í vestri — eins og Emma Goldman, sem viðstödd var útförina, lýsir í endurminningum sínum. Hún sökk, líkt og rússneska anarkistahreyfingin, lengst undir ystu sjónarrönd. Í ljósleysinu og kuldanum situr nú mannsbarn, einsamalt á leiðinu — einungis skuggamyndin sést sé horft nógu lengi. Það pírir augun, starir inn í ljósið í lófa sér og les af speglinum: „Þegar sólin bregst leysir sortinn hana af hólmi. Þegar svörin láta ítrekað á sér standa er kominn tími á nýjar spurningar.“