Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í alla nótt í fjörunni við Útskálakirkju í Garði þar sem um fimmtíu grindhvalir strönduðu í fjörunni í gærkvöldi. Nú í morgunsárið var verið að bjarga síðustu grindhvölunum. Um þrjátíu hvalir komust aftur á flot en ekki var hægt að bjarga um tuttugu þeirra, að sögn Elvu Tryggvadóttur sem stjórnaði aðgerðum í nótt.

Elva segir að nú upp úr klukkan átta hafi björgunaraðgerðum verið að ljúka. Hún segir hvalina sem komust á flot hafa leitað til baka í fjöruna en að það hafi tekist að reka þá aftur út á haf. 

Björgunarsveitir á Suðurnesjum og af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út á tíunda tímanum í gærkvöld að beiðni lögreglunnar vegna hvalanna sem strönduðu. Strax varð ljóst að ekki kæmust allir hvalirnir af en markmiðið var að reyna bjarga sem flestum. Um níutíu björgunarsveitarmenn voru að störfum í nótt auk tuttugu til þrjátíu sjálfboðaliða sem sáu um að vökva dýrin og sinna þeim þannig að hægt væri að bjarga þeim um leið og flóð kæmi, að sögn Elvu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.