María Kristjánsdóttir fjallaði um sýninguna Um það bil í Kassa Þjóðleikhússins. Og hún var hrifinn. Frásögn Maríu má lesa hér og heyra.

Það er ávallt gleðilegt þegar leikhúsin taka til sýningar ný erlend verk sem ekki eru ættuð úr engilsaxneskri menningu.  29. desember síðastliðinn var í Kassanum í Þjóðleikhúsinu frumsýnt eitt slíkt eftir ungt rómað sænskt skáld Jonas Hassen Khemiri í ágætri þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl þó á henni séu smávægilegir hnökrar. „Um það bil“ kallast leikritið á íslensku  en á frummálinu beri það heitið „um það bil jafngilt“ sem er stærðfræðitákn og vísar sennilega  til þess gildis sem aðalpersónur verksins  hafa í  samanburði við aðrar í hagkerfinu sem þær lifa í.  Allt eru það persónur, neðarlega í mannfélagsstiganum, heimilisleysingi, ungur karlmaður af erlendum uppruna í atvinnuleit, miðaldra kona sem ýtt hefur verið útaf vinnumarkaðnum, menntamaður, stundakennari í hagsögu við háskóla sem bíður eftir fastráðningu og sambýliskona hans sem  starfar í sjoppu. Leikskáldið notar aðferð sem flestum eru kunn úr nútímaskáldsögum og kvikmyndum en  áhugafólk um leikhús veit að á líka rætur sínar að rekja til Þýskalands.  Sérhver persóna segir sjálfstætt sína sögu. Sögurnar  eru fléttaðar saman í stígandi brotum og síðan tengdar allar undir lokin og verður sjoppan  sá staður sem nær að tengja örlög flestra.  Persónurnar eiga í samtali við fjölmargar aukapersónur,  sitt annað sjálf, hugsanir þeirra eru afhjúpaðar, lygar þeirra og hræsni. Sterkt er samband þeirra og samtal við salinn. Verkið er ríkt af dúndrandi háði,  farsakenndum uppbrotum og undirliggjandi harmi. Spjótum er beint að ýmsum annmörkum og einkennum hagkerfis okkar . 

Persónur og leikendur

Í Kassanum  kemur leikmyndateiknarinn Eva Signý Berg verkinu fyrir í hvítum flísalögðum geimi, á þremur plönum sem minnir  á hvít sótthreinsuð heimili yfirstétta  en líka  á líkskurðarstofu. Sex appelsínugulir stólar  í formi einsog línurit hagfræðinga eru einu leikmunirnir.  Yfir  gnæfa nöfn kauphalla, markaða, hagtalna sem neonauglýsingar.  Leikstjórinn Una Þorleifsdóttir  hefur spunnið fyndin leik og tónlistaratriði inn í verkið‒  tónlistin úr smiðju Magnúsar Þórs Sigmundssonar  og Elvisar Presley‒þau hafa þó ekki aðeins skemmtanagildi  heldur vísa í menningarheiminn sem umlykur fátækt aðalpersónanna og afvegaleiða jafnvel okkur áhorfendur . Flókin framvindan flæðir  ótrúlega vel í snöggum skiptingum milli persóna og  innri átaka þeirra.  Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd þeirra Kristins Gauta Einarssonar  gefur þægilegan, lágstemmdan taktinn  og maður heyrir hana sem sjálfstæðan þátt einmitt af því hvað hún er hljóðlát og ekki síðsuðandi.  Una vinnur líka  ákaflega vel með leikurunum átta.  Þannig  sýnir Stefán Hallur Stefánsson enn einu sinni í vetur á sér nýja hlið í gervi stundakennarans  Mána sem leiðir áhorfendur inn í verkið og hagsöguna með áreynslulausri  mýkt.  Þarna er hann lifandi kominn sá góðviljaði sem ætlar aldrei að verða eins og pabbi hans, verkamaðurinn og fyllibyttan, heldur breyta kerfinu innan frá og auðvitað ekki fyrr en hann hefur komið sér  áfram, lokið doktorsritgerðinni og fengið fastráðningu.  Pétur , heimilisleysinginn, er  yfir og allt um kring jafnt aðrar persónur sem áhorfendur, betlandi til að komast  að sjúkrabeði systur sinnar í annarri borg.  Hver er hann þessi óræði maður sem Þröstur Leó Gunnarson birtir okkur , tilvist hans virkar sem hvati á ákveðnar tilfinningar hjá öllum persónum, afhjúpar þær en einnig  heimsku okkar áhorfenda  á skelfilegan hátt á einum stað.  En við getum ekki ráðið í persónuna. Er hann að ljúga að okkur eða segja satt?  Þröstur Leó ber samt einhvern veginn allur með sér undirliggjandi harm verksins  eins og aðeins okkar bestu gamanleikarar geta gert  einkum þeir sem eiga ekki rætur sínar í velalinni millistétt.  Andrej, af innflytjendaættum, leikinn af Snorra Engilbertssyni,  afhjúpar stöðu jaðarhópa og miskunnarleysi fordómafulls kerfisins gagnvart þeim. Og sýnir Snorri vel ungæðishátt hans og  tilfinningarnar sem togast á í persónunni allt frá umhyggju fyrir fjölskyldu sinni til vanmáttar sem brýst út í því að sparka í þann sem er neðarsettur í mannfélagsstiganum og varð mér þá hugsað til Kölnar. Guðrún Snæfríður Gísladóttir leikur móður hans heltekna af ótta við Mamónu, gyðju ríkidæmis og markaðar. En hún leikur eins og aðrir í hópnum nokkur önnur hlutverk í verkinu og er það stærst hlutverk Freyju, miðaldra konu sem ýtt hefur verið út af vinnumarkaðinum fyrir nýrra og ferskara kveneintak. Í trúnaðarsamtali hennar við áhorfendur leikur Guðrún sér listilega að mörkum geðveilu og  kænsku, fær okkur jafnvel til að standa með persónunni þegar upp komast svik um síðir.  Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir Dýrfjörð og Katrín Halldóra Sigurðardóttur leika hin tvö sjálf yfirstéttarstúlkunnar Margrétar sem tekið hefur niður fyrir sig. Hin smávaxna  fíngerða Þorbjörg er hin góðviljaða sála, sem vill flýja raunveruleikann og öðlast frelsi með því að stunda sjálfbæran búskap; Katrín Halldóra  er stóra freka yfirstéttardrósin altekin af græðgi og neysluhyggju sem sem krefst þess að fá „að mæla heiminn í tölum og krónum og prósentum“ og leggur smátt og smátt alla persónuna undir sig. Það er djarft að tefla þessum andstæðum saman en það gengur skemmtilega upp, samleikur þeirra er góður. Katrín Halldóra leikur einnig önnur smærri hlutverk af mikilli kímni og syngur listavel. Hér er augsýnilega fædd ný gamanleikkona sem  mun áreiðanlega fá tækifæri til að þroskast í leikhúsinu og vonandi verður haldið eins vel utan um fíngerðari, alvörugefnari hæfileika Þorbjargar  þó afþreyingin  sé  svo stór þáttur í lífi okkar. Þriðji ungi leikarinn , Oddur Júlíusson, sem geislar af miklum styrk,  fær að sýna á sér margar smellnar hliðar en er bestur í hlutverki  skemmtanastjóra sem lyftir  áhorfendum  í gleðivímu með spuna og söng fyrir hlé og í upphafi síðara þáttar afhjúpar svo grimmd og mannfyrirlitningu skemmtanaiðnaðarins  og gagnrýnisleysi okkar áhorfenda á hann.

Bara farsi? 

Í Svíþjóð og hér á landi hefur verið kvartað yfir því að verkið sé bara farsi og  enginn boðskapur sé í verkinu, engin von. Þó  kastar það fram fjölda spurninga sem fylgja okkur heim. Þar hefur líka til dæmis verið afhjúpað að það er lygi að einstaklingurinn skapi sína eigin tilveru.  Stétt hans, foreldrar hans, sambönd þeirra og fjárráð ráða því hvernig hann lítur út  og umfram allt hvaða menntun, starf  og líf bíður hans. Og  það gladdi mitt gamla hjarta ósegjanlega að sjá ósigur  þeirrar heftandi raddar menntamannsins sem telur að hægt sé að breyta kapitalismanum innanfrá.  Minnug þess sem  áður hefur komið fram í leikritinu,‒ ég vitna í:  „Hugsið ykkur: Einmitt á þessu augnabliki gæti sá sem hefur fjárfest í tiltekinni upplifun gert eitthvað allt annað. Klappað ketti eða kennt barnabarni að kveikja eld eða hellt sig fulla eða hafið byltingu.“

Þar liggur vonin.  Og, í guðanna bænum, samt eða þess vegna „fjárfestið“ í  skemmtilegu upplifuninni „Um það bil“.