Um fimm þúsund manns hafa orðið að flýja heimili sín vegna skógareldanna á Gran Canaria á Kanaríeyjum um helgina. Eldarnir loga á svipuðum slóðum og um síðustu helgi, en vindáttin hefur dreift eldunum yfir á svæði þar sem er meiri eldsmatur.
Mikill hiti, þurrkar og vindur gera slökkviliðsmönnum erfitt fyrir. Ekki er útilokað að fleiri eigi eftir að þurfa að yfirgefa heimili sín til að gæta fyllsta öryggis, hefur Canarias7 fréttamiðillinn eftir Angel Victor Torres, landstjóra Kanaríeyja.
Hundruð slökkviliðsmanna vinna að því að reyna að ráða niðurlögum eldanna. Þyrlur hafa borið fötur yfir svæðið og hellt úr þeim samanlagt um 800 þúsund lítrum af vatni. Mikill reykur gerir slökkvistarf úr lofti erfitt. Alls hafa um 3.400 hektarar skóglendis brunnið í eldunum um helgina.