Uber er samgöngufyrirtæki, ekki bara upplýsingaveita, samkvæmt dómi Evrópudómstólsins sem kvað upp úr með það í dag í máli spænskra leigubílstjóra frá Barcelona gegn Uber. Fyrirtækið verður nú að fara að gildandi reglum um leigubílaakstur í Barcelona og reyndar í hverju ESB-landi fyrir sig. Uber taldi að um fyrirtækið giltu Evrópusambandsreglur sem koma í veg fyrir takmarkanir á stofnun og rekstri fyrirtækja sem eiga viðskipti á netinu.

 

Dómstóllinn taldi að miðlun Uber, sem tengir fólk sem vill komast milli staða, með appi og gegn gjaldi, við ökumenn sem eru ekki atvinnubílstjórar og keyra sinn eigin bíl, hljóti að skoðast sem samgönguþjónusta. Uber er því undir sömu reglur selt og hver önnur leigubílastöð sem starfar á sviði samgangna. Um slíka þjónustu og starfsemi setji aðildarríkin sér sjálf lög og reglur. Evrópudómararnir telja að appið sé nauðsynlegur þáttur þeirra sem vilja selja og kaupa far og Uber setji bílstjórunum að endingu skilyrði um hvernig þeir starfa. 

Niðurstaðan gæti haft áhrif á aðgangs-hagkerfið

Talsmenn Uber eru kokhraustir og segja niðurstöðu dómstólsins litlu breyta en á vef BBC er haft eftir sérfræðingum að hún gæti haft mikil áhrif á hið svokallaða aðgangs-hagkerfi og fyrirtæki sem halda því fram að starfsemi þeirra sé litlu meira en app sem tengi þá sem falbjóða vörur eða þjónustu við viðskiptavini og kaupendur og skipti engu hvort þar sé höndlað með gistingu, sendingar eða ökuferðir. Því geti niðurstaðan í framhaldinu til dæmis haft áhrif á starfsemi Airbnb og Rohan Silva, fyrrverandi ráðgjafi forsætisráðherra Breta, spáir því í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC að þess sé skammt að bíða að Evrópusambandið beiti sér fyrir regluverki í kringum starfsemi Airbnb. Nú sé málum misjafnlega háttað í Evrópuríkjum og Silva bendir á að starfsemi Ubers og Airbnb sé lögleg í Portúgal en sæti takmörkunum í Frakklandi. 

Uber taldi sig upplýsingaveitu

Uber varði sig með því að starfsemi þess heyrði undir upplýsingar og netviðskipti sem njóta tiltölulega meira frelsis í Evrópusambandinu en starfsemi á borð við leigubílarekstur. Ýmsum þykir löngu tími til kominn að spornað sé við tæknifyrirtækjunum. Í þeirra hópi er viðskiptafræðiprófessorinn Andre Spicer sem BBC ræðir líka við. Hann segir að með dómi gegn Uber leiði ESB viðleitni til að setja tæknigeiranum mörk og regluverk. Tæknifyrirtæki hafi notið nær ótakmarkaðs frelsis. En það er ekki víst að þetta þýði endilega að gamalsdags leigubílarekstur sé það sem af lifir því Spicer telur að ákvörðun Evrópudómstólsins verði til þess að ný og minni öpp spretti upp víðs vegar um Evrópu. 

Verkalýðsforkólfar fagna niðurstöðu dómsins sem þýði að Uber verði að hlíta sömu reglum og aðrir og þeir sem keyra á þess vegum eigi rétt á að minnsta kosti lágmarkslaunum og orlofi eins og aðrir á vinnumarkaði. Það sé ekki gott ef tækniframfarir verði til þess að aðstæðum vinnandi fólks fari aftur um áratugi. 

Uber fengu ekki áfram leyfi í Lundúnum

Í nóvember sagði Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna að það gæti tekið Uber mörg ár að endurnýja rekstarleyfi sitt í borginni en í haust ákváðu samgönguyfirvöld þar að Uber uppfyllti ekki skilyrði fyrir rekstri leigubílastöðvar. Leyfið rann út í október en bílstjórar keyra enn undir þess merkjum, því málinu hefur verið áfrýjað. Meðal þess sem þótti á skorta var að bakgrunnur bílstjóra væri kannaður og tilkynnt um alvarleg brot. 

Starfsemi Uber hefur víða verið þrætuepli og komið hefur til kröftugra mótmæla sem hafa spannað veröld alla, allt frá Adelaide í Ástralíu til Santíagó í Síle.

Sjálfir segja Ubermenn að ákvörðun dómstólsins breyti litlu um starfshætti þeirra, fyrirtækið sé þegar bundið af lögum um samgöngur í flestum ESB-ríkjum, þeir harma það að milljónum Evrópubúa sé meinað að nýta sér þjónustuna. Þetta geti orðið til þess að endurskoðun löggjafar tefjist enn. Þeir sem eru hliðhollir Uber benda á að í borgum eins og Lundúnum hafi tilkoma Uber orðið til þess meðal annars að hinir sögufrægu bílstjórar svörtu leigubílanna fóru að taka við krítarkortum og eins hafi samkeppnin orðið neytendum í hag og lækkað verð.