Forvitni er lykilorð þegar kemur að bókinni The Invention of Nature, eða Uppfinning náttúrunnar, eftir Andreu Wulf. Hún fjallar um mann sem höfundur kallar týnda hetju vísindanna; prússneska landkönnuðinn og náttúruvísindamanninn Alexander von Humboldt, sem var á dögum um aldamótin 1800 og var einn frægasti hugsuður sem uppi var á þeim tíma.
Uppfinning náttúrunnar eftir breska rithöfundinn og sagnfræðinginn Andreu Wulf segir frá náttúrurannsóknum og ferðalögum Humboldts um hálendi Suður-Ameríku, yfir snævi þaktar sléttur Síberíu, borgarlífinu í París og Berlín og inn fyrir dyr Hvíta hússins í Washington. Bók Wulf er allt í senn ævisaga þessa merkilega vísindamanns, ótrúleg ferðasaga og nákvæm innsýn í hugarheim manns í ástríðufullri þekkingarleit.
The Invention of Nature kom út 2015 hjá Knopf í New York og hlaut mikið lof gagnrýnenda og vísindamanna um allan heim. Hún komst á metsölulista New York Times og hlaut hin virtu Science Book Prize 2017. Það er ekki auðvelt að segja frá þessu verki í fáum orðum enda er bókin stór og yfirgripsmikil, fer ítarlega yfir ævi og starf Humboldts en greinir einnig frá áhrifum hans á verk annarra vísindamanna og heimspekinga.
Alexander von Humboldt fæddist 1769 í Berlín sem þá var hluti af Prússneska keisaradæminu. Hann fékk ungur áhuga á náttúrunni og á námsárunum fannst honum erfitt að sitja við glugga og blaða í bókum þegar úti beið spennandi og leyndardómsfullur heimur. Humboldt missti föður sinn aðeins níu fára gamall. Það var honum sár missir því móðir hans var ströng og fjarlæg í samskiptum við hann. Humboldt hlýddi henni þó og lagði stund á hagfræði, en var feginn þegar hann gat síðar lagt stund á jarðfræði, enda nær áhugasviði hans. Hugurinn leitaði alltaf út fyrir Evrópu til þess að rannsaka fjarlæga heimshluta og eftir að móðir hans lést gat hann loksins fjármagnað rannsóknarferðina sem hann hafði dreymt um. Humboldt var ólíkur öðrum vísindamönnum að því leyti. Margir náttúruvísindamenn á þessum tíma voru skilyrtir af bakhjörlum sínum og þeim sem borguðu brúsann. Þeir þurftu gjarnan að fylgja fastmótaðri ferðaáætlun um ákveðin landsvæði.
Humboldt þurfti þess ekki. Árið 1799 lagði hann af stað í fimm ára ferðalag sem átti eftir að marka djúp spor í lífi hans. Frá La Coruña á Spáni lá leiðin til Suður-Ameríku, þar sem hann ferðaðist um norðurhluta álfunnar, síðan til Mexíkó, Kúbu og loks Bandaríkjanna. Á leiðinni gerði Humboldt ásamt samferðamönnum sínum ítarlegar rannsóknir á nær öllu sem fyrir augu bar, kleif öll fjöll sem á vegi hans urðu og teiknaði og skráði allt saman samviskusamlega. Niðurstöður rannsókna sinna vestanhafs birti Humboldt síðar í 30 bindum þar sem hann sagði frá þeim 6.000 plöntum sem hann hafði safnað, en af þeim var nær helmingurinn nýr í vísindaheiminum. Humboldt safnaði líka gögnum um landafræði og loftslag og kynnti sér menningu og siði.
Humboldt bjó lengst af í París og Berlín en 1829 bauðst honum að fara í annan meiri háttar leiðangur í boði Rússakeisara, ásamt tveimur samferðarmönnum. Þeir fóru frá Berlín um Úralfjöll, Síberíu, að landamærum Kína, að Kaspíahafi og loks til Moskvu og St. Pétursborgar. Um þau ferðalög skrifaði hann í fjölmörgum bókum og greinum og Humboldt skrifaði raunar um rannsóknir sínar allt til æviloka. Á efri árum skrifaði hann sitt áhrifamesta verk, Kosmos, þar sem hann gerði tilraun til að draga allar hugmyndir sínar saman í eitt. Þar fer höfundur í allsherjarferðalag með lesendur frá óravíddum Vetrarbrautarinnar niður á yfirborð jarðar og áfram inn að kjarna hennar. Kosmos var kórónan á höfundarverki Humboldts.
Hvernig er hægt að skilja náttúruna og er munur á því og að skynja hana? Stja má að þetta sé grundvallarspurning í rannsóknum Humboldts. Leitin að samhengi fyrirbæranna í náttúrunni. Heildræn nálgun vísindanna sem opnar á list, sögu, skáldskap og pólitík. Humboldt var fæddur inn í miðja iðnbyltingu, þegar menn töldu sig hafa tamið náttúruna og þyrftu ekki að óttast hana lengur. Í tvær aldir fram að því var hún álitin flókið apparat, „hið stórfenglega og flókna vélvirki alheimsins.“ Guð var að verða óþarfur og tími mannsins að renna upp fyrir alvöru. Á tímum þegar margir vísindamenn leituðu endanlegs sannleiks og alheimslögmála vildi Humboldt eitthvað annað og meira. Hann var vissulega heillaður af mælitækjum og aðferðum vísindanna en trúði því um leið að eina leið mannsins væri að blanda hughrifum og tilfinningum í jöfnuna. Hann trúði því að þekkingu þyrfti að miðla, deila og gera aðgengilega öllum.
Á meðan hann lifði var hann einn frægasti og áhrifamesti maður í heimi, kallaður Napóleon eða jafnvel Shakespeare vísindanna. Rannsóknir Humboldts voru að mörgu leyti langt á undan sínum samtíma. Hann fann meðal annars upp jafnhitalínur sem við sjáum enn í dag á kortum veðurfréttamanna, og sömuleiðis svokallaðan segulmiðbaug. Hugmyndir um gróður- og loftslagsbelti má einnig rekja til hans en hann sagði að áhrif mannsins á jörðina hefðu í för með sér hnattræna röskun, til að mynda með skógareyðingu. Fyrir það varð hann síðar faðir umhverfishreyfingarinnar.
Humboldt sneri frá mannmiðaðri afstöðu náttúrufræðinnar allt frá Aristótelesi, til Carls Linnaeus og stóru trúarritanna. Náttúran í hans huga var ekki óumdeilanlega sérsniðin fyrir menn heldur sá Humboldt stærra samhengi, net lífkerfis og jarðar, þar sem allt hefur virkni í stórri hringrás. Náttúran á í dularfullum samskiptum við okkar innra tilfinningalíf, sagði Humboldt. Þetta var byltingarkennd hugsun meðal vísindamanna þess tíma.
Hluta þessarar hugsunar fékk Humboldt frá þýska stórskáldinu Johanni Wolfgang von Goethe sem hann hafði kynnst vel ungur að árum. Goethe gaf mér ný augu, sagði Humboldt. En hann hafði ekki síður áhrif á Goethe. Goethe hafði mikinn áhuga á náttúruvísindum auk skáldskaparins og varð mjög heillaður af ástríðu Humboldts fyrir rannsóknum sínum. Svo mjög að skáldið kláraði eitt af sínum frægustu verkum, Faust, sem hann hafði þá látið liggja í skúffunni um langa hríð, eftir fyrsta fund sinn við Humboldt.
Humboldt hafði áhrif á fleiri merkismenn. Sjálfur Charles Darwin leit mjög upp til hans og sagði að eina ástæðan fyrir því að hann steig um borð í skipið Beagle til Suður-Ameríku hefði verið skrif Humboldts. Ensku skáldin William Wordsworth og Samuel Coleridge ortu báðir út frá hugmyndum hans, bandaríska skáldið og heimspekingurinn Henry David Thoreau fann mörg svör við sínum spurningum í ritum hans. Hann leitaði jafnvægis í náttúrunni með sínum fábrotna lífsstíl í kofa lengst inni í skógi í rúm tvö ár. Þar skrifaði hann uppkastið að Walden sem hann leit á sem sitt svar við Kosmos Humboldts. Og svona mætti lengi telja.
Áhrif Alexanders von Humboldt voru gríðarleg og ómetanleg fyrir vísindin. Framsækni hugmynda hans og stundum róttækni var fólgin í að tala um ímyndunarafl og anda í sömu andrá og náttúruvísindi og staðreyndir. Humboldt opnaði á hið huglæga. Opnaði á stærri glugga fyrir vísindamenn og aðra til að horfa á náttúruna. Hann sá manninn sem hluta af náttúrunni, ekki sigurvegara og með það í huga tók hann harða afstöðu gegn nýlendubrölti Evrópumanna. Hann leit upp til Bandaríkjanna og frelsishugmynda þar í landi en gagnrýndi hástöfum þrælahald. Humboldt var brautryðjandi, hinn sanni áhrifavaldur. Einn sá allra frægasti, en í dag einn sá allra gleymdasti. Maður sem afrekaði það að gera vísindi bæði aðgengileg og vinsæl. The Invention of Nature eftir Andreu Wulf er stór og metnaðarfull bók sem ætti að takast að setja Alexander von Humboldt aftur á sinn rétta stall þar sem allir geta séð hann. Sem er tímabært, því nú, frammi fyrir neyðarástandi í umhverfismálum og loftslagshamförum, hafa hugmyndir Humboldts aldrei verið jafn mikilvægar. Við þurfum jafnvægi og heildarsýn. Við þurfum Humboldt.