Fjölmennt slökkvilið vinnur nú að því að slökkva eldinn í húsinu í Fornubúðum í Hafnarfirði þar sem mikill eldur kviknaði í nótt. Tekist hefur að einangra eldinn við annan helming hússins. Þar eru tvö matvinnufyrirtæki með starfsemi. Sum fyrirtæki í nágrenninu hafa ekki getað hafið starfsemi í morgun vegna lokana og reyks.

„Í þessum hluta hússins sem brennur er fiskvinnsla. Það eru tvö fyrirtæki að mér skilst sem bæði eru í matvinnslu og annað er fiskvinnsla,“ sagði Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í útvarpsfréttum klukkan níu. 

„Það eru plastkör og alls konar hlutir sem fylgja þessari vinnslu,“ sagði Birgir. „Auðvitað kemur af þessu plasti og þessum dökka reyk: hann er hættulegur. Það eru engin hættuleg efni sem við höfum rekist á í sjálfu sér, fyrir utan reykinn sem hefur myndast af plastinu.“

Enginn hefur slasast af völdum eldsins, sagði Birgir. „Það er vaktmaður sem kemur að húsinu en hann sá strax að það er lítið að gera og hringdi straxt eftir aðstoð. Það var enginn í hættu og engin slys á fólki.“

Eldurinn hefur áhrif á starfsemi fyrirtækja í næsta nágrenni, sagði Birgir. „Nei, þau eru sum ekki farin af stað. Við erum að reyna að minnka lokanir og taka stöðuna klukkutíma eftir klukkutíma,“

RÚV – Þorvarður Pálsson