Vampírugreifinn Drakúla gengur í endurnýjun lífdaga um þessar mundir í nýjum sjónvarpsþáttum á Netflix, Dracula. Þeir byggjast á bók Brams Stokers frá 1897 og hafa bókmenntafræðingar og pælarar í gegnum tíðina greint sterka kynferðislega undirtóna í sögunni.
Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur segir að þótt Drakúla hafi ekki verið fyrsta birtingarmynd vampíra í bókmenntum sé hún sú frægasta og hafi með tímanum orðið fyrirmynd annarra. „Hún er greinilega skrifuð af mjög komplexuðum manni. Hún kemur út á Viktoríutímanum (1897), þarna eru hlutir að breytast, mikil íhaldssemi en margt á seyði. Það hefur löngum verið bent á fjölbreytilega erótíska undirtóna í verkinu. Nú er nýkomin út ævisaga Stokers og þar eru leiddar líkur að hann hafi verið að einhverju leyti hinsegin.“ Sjá megi ýmis merki um það í bókinni og nýjar kynslóðir finni alltaf eitthvað til að tengja við.
Leikarinn og leikstjórinn Viðar Eggertsson er mikil Drakúla-maður og hefur leikið hann sjálfur á sviði. „Það sem er áhugavert við þessa bók er þessi erótíski undirtónn og vitneskjan um að vampírur fara ekki í manngreiningarálit hvað varðar kyn þegar þeir leggjast á fólk. Þannig að það er svona bísexúal heimur.“ Úlfhildur segir að Drakúla skjóti upp kollinum aftur og aftur vegna þess að verkið fjalli ekki beinlínis um neinn sérstakan tíma. „Þetta fjallar um heim hins óþekkta. Alls þess sem er ekki vestrænt og hvítt. Og heim hins dulúðuga sem er líka hættulegur. Það hefur mikið verið fjallað um Drakúla í tengslum við innflytjendur og óæskilega blöndun blóðs. Við búum í heimi sem reynir að búa til þröskulda, tálma aðra heima í að blandast við okkar. Halda eins og við getum í okkar hvíta ídentítet.“
Viðar segir að það hafi löngum þótt heillandi hugmynd hjá mönnum að stíga yfir í annan heim. „Inn í lostugri veröld þar sem nánast allt er leyfilegt. Það hefur kitlað hinn vestræna mann lengi að gefa sig slíku á vald, sérstaklega ef þú getur kennt einhverjum öðrum um að þú lendir þar.“ Spurð um uppáhalds útgáfu sína af Drakúla nefnið Úlfhildur mynd Francis Ford Coppola frá 1992 þar sem Gary Oldman er í hlutverki greifans. „Ég hef ekki enn þá séð neitt sem stenst samanburð við hana. Hún meira að segja slær út Bela Lugosi sem ég var mjög skotin í.“
Viðar er hins vegar hrifnastur af Nosferatu frá 1922 eftir þýska impressjónistann F. W. Murnau og svo Klaus Kinski í mynd Werners Herzog frá 1979. „Túlkun Klaus Kinkis á Drakúla er svo mögnuð. Því hann nær að sýna hann sem umkomulausa manneskju. Um sársaukann og dýptina, hversu óbærilega sorglegt það er að geta ekki dáið og þurfa að nærast á fólki sem þig langar að gera að vinum þínum.“
Rætt var við Úlfhildi Dagsdóttur og Viðar Eggertsson í Síðdegisútvarpinu.