Tveir af hverjum þremur Dönum glíma við langvinna sjúkdóma, mun fleiri en áður var talið. Kvillum fjölgar með aldri og sá algengasti er hár blóðþrýstingur. 75 ára og eldri glíma að jafnaði við fleiri en fimm kvilla.
Þetta er niðurstaðan úr nýrri rannsókn vísindamanna við háskólann í Álaborg. Þeir skoðuðu sjúkraskýrslur allra Dana, sextán ára og eldri. Niðurstöðurnar eru sláandi og sýna fram á að mun fleiri þjást en áður var talið.
Höfundar þessarar rannsóknar segja þetta vera í fyrsta sinn sem heilsufar heillar þjóðar er kortlagt.
Fólk sem er sextán til fjörutíu og fjögurra ára glímir að jafnaði við einn komma einn sjúkdóm, þeir sem eru fjörutíu og fimm til sjötíu og fjögurra ára eru með 2,7 sjúkdóma, og þeir sem eru sjötíu og fimm og eldri fimm komma þrjá. Karlar eru að meðaltali með tvo kvilla og konur með tvo komma fjóra.
Rannsóknin sýnir að algengasti langvarandi kvillinn meðal Dana er hár blóðþrýstingur. Þar næst kemur of mikil blóðfita, þunglyndi og svo berkjubólga.