BBC og Guardian segja að tveir þeirra sem urðu fyrir árás manns sem var vopnaður hníf á Lundúnabrú í dag séu látnir. Í frétt BBC sé er vísað til heimildar innan stjórnkerfisins sem hafi staðfest að tveir hafi látist í árásinni auk árásarmannsins sem lögreglumaður skaut til bana. BBC fékk ekki frekari upplýsingar um þá sem létust. Sky segir að minnst einn hafi látist.

Maður vopnaður hnífi réðist á vegfarendur á Lundúnabrú síðdegis og stakk marga. Ekki er ljóst hversu margir særðust. Af myndböndum má ætla að vegfarendur hafi náð að yfirbuga árásarmanninn og halda honum niðri. Lögreglumaður sem kom að skaut manninn svo. Það var síðar skýrt með því að maðurinn hefði verið í sprengubelti, sem hefði svo komið í ljós að var eftirlíking.

Upp úr klukkan sex að íslenskum tíma bárust fréttir af því að einn vegfarendanna sem urðu fyrir árás mannsins hefði látist. Upp úr hálf sjö sögðu BBC og Guardian að tveir hefðu látist í árásinni.

Breska lögreglan rannsakar árásina sem hryðjuverk. 

Uppfært 22:17 Breska lögreglan staðfesti í kvöld að tveir vegfarendur hefðu látist þegar maður réðist á hóp fólks á Lundúnabrú í dag. Maðurinn var vopnaður hnífi og særði minnst þrjá auk þeirra sem hann myrti. 

Útgöngubann við Lundúnabrúna

Einar Örn Angantýsson, nítján ára Íslendingur, var við störf á útvarpsstöð í byggingu nálægt brúnni þegar árásin var gerð. Hann var nýbúinn í hádegismat og var úti á svölum að njóta útsýnisins yfir borgina. „Svo fór ég að heyra skot og fólk byrjaði að hlaupa og löggubílar streymdu að. Ég heyrði það og sá fleiri löggubíla koma og eins og ég sagði - fólk að hlaupa,“ sagði Einar Örn í samtali við fréttastofu síðdegis.

Skothljóðin eru líklega þau sem heyrðust þegar lögregla skaut árásarmanninn til bana. Í fyrstu var talið að hann væri með sprengju á sér en lögregla staðfesti síðar að það hafi verið gervisprengja. 

Byggingunni sem Einar vinnur í var læst og þegar fréttastofa ræddi við hann rétt fyrir klukkan sex í dag var útgöngubann í gildi í nágrenni við brúna. „Núna er ég enn þá bara fastur í byggingunni og bara veit ekki meira.“ Lestarstöðvum í nágrenninu var lokað. Einar sagði að allt væri stopp og enginn mætti fara út úr byggingunni né koma þangað inn. 

Segir aðstæðurnar ógnvekjandi

Einar segir að þessar aðstæður hafi verið ógnvekjandi, að vita ekki hvað sé að fara að gerast og margir að hringja og kanna hvort hann sé heill á húfi. 

Árið 2017 voru átta myrt og fjörutíu og átta særð í hnífaárás á sömu slóðum, þá var ekið á gangandi vegfarendur á brúnni og þrír menn réðust á fólk með hnífum við Borough markaðinn. 

Fréttin hefur verið uppfærð.