109 hafa nú greinst með COVID-19 veiruna hér á landi og um 900 einstaklingar eru í sóttkví. Tveir liggja inni á Landspítalanum vegna veirunnar og búið er að fresta valkvæðum aðgerðum á spítalanum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að yfirvöld færist nær því að koma á samkomubanni.
„Það er hins vegar óljóst hvernig á að beita samkomubanni. Norðurlöndin beita mismunandi aðferðum, svo það er ekki ein leið til. Við erum með þetta í vinnslu, en heilbrigðisráðherra hefur síðasta orðið,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hann sagði næsta skref í baráttunni jafnframt vera það að horfa á skaðaminnkandi aðgerðir. Þá yrði dregið úr skimunum vegna veirunnar og frekar horft til þess að hjálpa veikum einstaklingum og styrkja heilbrigðiskerfið.
Það sem er nýtt varðandi smitin hér á landi er að þrjú þeirra hafa verið rakin til Bandaríkjanna. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort útvíkka eigi tilmæli til þeirra sem koma erlendis frá um að fara í sóttkví.
„Við höfum ekki tekið afstöðu til þess, en erum að skoða Evrópu þar sem veiran er í vexti. Það fer kannski að nálgast það hvort þurfi að setja alla sem koma til Íslands í sóttkví, en það gæti reynst mjög erfitt í framkvæmd. Við þurfum að endurmeta þetta á hverjum degi,“ sagði Þórólfur.
Fordæmir ekki starfsfólk sem fór utan
Alma Möller landlæknir kallaði eftir því að almenningur sýni umburðarlyndi, sérstaklega í ljósi umræðu sem skapaðist um að heilbrigðisstarfsfólk hafi verið í skíðaferðir eftir að biðlað var til þeirra að halda sig heima.
„Það var ekkert valdboð og fólki var frjálst að taka eigin ákvarðanir. Mér dettur ekki í hug að dæma þá sem fóru. Það hefur mikið mætt á heilbrigðisstarfsólki og mörgum þyrstir í frí. Það var ekki hægt að sjá fyrir hvað áhættusvæðin breyttust hratt,“ sagði Alma.
Þá upplýsti hún að 180 heilbrigðismenntaðir einstaklingar hafi skráð sig í bakvarðasveit vegna veirunnar, og helmingur bjóði sig fram til að sinna sjúklingum sem sýktir hafa verið með COVID-19.
Almannavarnir geta tekist á við fleiri stór verkefni
Það fór ekki fram hjá mörgum á suðvesturhorninu að stór jarðskjálfti reið yfir svæðið í dag. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var spurður hvort almannavarnir væru í stakk búnar til þess að takast á við stórar hamfarir samhliða COVID-19 faraldrinum.
Víðir sagði að búið væri að flytja COVID-19 verkefni almannavarna út úr hinni almennu samhæfingarmiðstöð, og því væri hægt að ráða við tvö stór verkefni á sama tíma.
Varðandi hvað þarf til svo gripið verði til samkomubanns sagði Víðir að það yrði á þeim punkti þar sem smitin yrðu svo mörg og útbreidd að erfitt væri að fylgja þeim eftir.