Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Landspítalann í Fossvogi 23 mínútur yfir sex í kvöld. Um borð voru þeir fjórir sem slösuðust alvarlegast í rútuslysinu undir Öræfajökli í dag. Tveir þeirra lentu undir rútunni. Allir voru með meðvitund þegar komið var með þá á Landspítalann.

Í rútunni voru 32 kínverskir farþegar og bílstjóri. Nokkrir eru með beinbrot eða önnur meiðsl en ekki er komið í ljós hversu margir.

Allt var sett á fullt á Landspítalanum í dag til að geta tekið á móti sjúklingum. Sjúklingar voru útskrifaðir og fluttir annað til að bregðast við slysinu. „Það er búið að vera mjög erfitt og þungt ástand á spítalanum, þannig að við þurftum að bregðast hratt við. Allir brugðust mjög vel við því og við viljum sérstaklega þakka sjúklingum og aðstandendum sem voru tilbúnir að fara i alls kyns hreppaflutninga og auðvitað okkar nágrannasjúkrahúsum sem tóku vel við sér,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Landspítalinn sendi fimm hjúkrunarfræðinga og lækna á staðinn til að meta hversu alvarleg meiðsl fólksins í rútunni væru. Það var hægt vegna þess að danska varðskipið Vædderen var í Reykjavíkurhöfn og lagði þyrlu sína af mörkum til hjálparstarfsins.

Páll sagði að auk þeirra fjögurra sem voru fluttir á Landspítala í dag gætu fleiri bæst við, ef meiðsl þeirra væru metin það alvarleg. Fólk verður líka sent á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og á Sjúkrahúsið á Akureyri til að deila álagi.

Þjóðvegur eitt lokaðist á slysstað en var opnaður aftur fyrir umferð klukkan að verða sjö.

Fréttin hefur verið uppfærð.