Tveir farþegar sem komu með flugvél Icelandair frá Veróna á Ítalíu síðdegis í dag eru komnir í sóttkví. Sýni voru tekin úr þeim við komuna og eru niðurstöðu að vænta á morgun. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum að farþegarnir tveir hefðu gefið sig fram við hjúkrunarfræðing á flugvellinum þar sem þeir hefðu verið með flensueinkenni. „Þeir fara þá heim til sín og verða þar í sóttkví.“

Hann sagði að það tæki 4 til 6 klukkustundir að fá niðurstöður úr sýnatökunni en ekki væri hægt að vinna úr þeim allan sólarhringinn. Því væri von á niðurstöðum um hádegisbil á morgun.

Öll sýn sem voru tekin í gær í tengslum við COVID-19 smit karlmanns á fimmtugsaldri reyndust neikvæð. Tala þeirra sem nú eru í sóttkví vegna faraldursins er nú komin 83. Þá er maðurinn sem greindist með veiruna í einangrun á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Efling veitti í dag undanþágu frá verkfalli vegna sorphirðu og samkvæmt upplýsingum fréttastofu er von á undanþágubeiðni frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.   Sú beiðni mun ná til þrifa á hjúkrunarheimilum en einnig á heimilum aldraðra og fatlaðs fólks og böðun fyrir sömu hópa. 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að félagið væri vel í stakk búið til að afgreiða undanþágubeiðnir fljótt og vel. Þá skipti máli að Efling væri í góðu sambandi við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Víðir sagði enga ástæðu til að vera óttaslegin. „En við þurfum að vera viðbúin og fara eftir leiðbeiningum. Ef við förum eftir þeim þá eru minni líkur á því að við smitumst.“