Tveir hópar keppa um að endurreisa lágfargjaldaflugfélag á gunni Wow air. Hópur bandarískra flugrekenda hefur forskot á hóp þeirra sem standa að WAB air. Þetta segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is. Þarna keppist tveir hópar um leifarnar af Wow. Enn er ekki vitað hverjir tilheyra fyrri hópnum.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bandarískir flugrekendur hefðu keypt allar flugrekstrartengdar eignir úr þrotabúi WOW air. Meðal þess sem keypt var, segir í Fréttablaðinu, eru vöru- og myndmerki Wow-air, Wow-netlénin, bókunarkerfi og annar hugbúnaður, stærstur hluti verkfæra og varahlutalagers fyrirtækisins og jafnvel einkennisfatnaður áhafna og annars starfsfólks. Viðskiptin hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Fyrr í vikunni var greint frá áformum tveggja fyrrverandi stjórnenda hjá WOW, og hópi fjárfesta, um að stofna nýtt lágfargjaldaflugfélag, sem ber vinnuheitið WAB air, á grundvelli hins gjaldþrota félags. Skúli Mogensen kemur ekki að stofnun félagsins eða rekstri þess. 

Óvíst hverjir tilheyra bandaríska hópnum

„Við vitum í sjálfu sér ekkert hverjir standa að þessum seinni hópi, þessum bandaríska, og hvort til dæmis Skúli Mogensen, sem var forstjóri WOW-air, er þar með, eða hvort jafnvel Indigo Partners, sem er þetta bandaríska fjárfestingafélag sem var að skoða kaup á Wow air eiginlega allan síðastliðinn vetur, hvort það fyrirtæki sé inni í þessu,“ sagði Kristján Sigurjónsson í viðtali í Morgunvaktinni á Rás eitt. 

Hann telur ólíklegt að stórt bandarískt flugfélag sé þarna á bak við enda hafi þau upplýsingaskyldu að gegna og ekkert hafi verið tilkynnt um slík áform enn. Líklegra sé kaupandinn sé fjárfestingafélag, svo sem Indigo, sem ekki hafi upplýsingaskyldu að gegna. 

Ólíklegt að íslenskir bankar veiti lán

Kristján segir að áform um fjármögnun WAB air séu einkennileg. Ólíklegt sé að íslenskir bankar séu viljugir til að lána til flugrekstrar eins og staðan er núna, en það hafi verið ein af forsendum verkefnisins. Einnig sé óstaðfest að írskir fjárfestar komi að fjármögnun félagsins, líkt og talað hafi verið um.

Stórhugar sjái tækifæri í því að endurreisa flugfélagið

Hann segir fréttir um áform bandarísku rekstraraðilanna séu eflaust högg fyrir WAB-hópinn. Bandaríski hópurinn hafi greinilega forskot. „Þetta eru greinilega einhverjir stórhugar sem telja að það sé möguleiki á að blása til sóknar á ný og endurreisa WOW air.“

Kristján segir að það sé eitthvað um það að fyrirtæki og félög kaupi eignir og vörumerki úr þrotabúum annarra flugfélaga, það sé þó aldrei á vísan að róa þegar menn taki við vörumerki sem eigi sér einhverja sögu.