Þrítugasta október settust þúsundir Þjóðverja niður til að spjalla um ýmis átakamál í þýsku þjóðlífi. Spjall um daginn og veginn er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi en þetta var fólk sem hafði líklega aldrei hist og var parað saman í krafti þess að það var á öndverðum meiði þegar kom að nokkrum já eða nei spurningum.

Spurningum eins og; á að leggja meiri skatta á flugferðir, á ríkið að grípa frekar inn í fasteignamarkaði til að tryggja framboð á viðráðanlegu húsnæði, eru aldraðir dragbítar á hina yngri, á að sækjast eftir nánari tengslum við Rússland, lætur Þýskaland Austur-Þjóðverja sig of litlu skipta, hafa konur sömu tækifæri og karlar, hefur straumur innflytjenda dregið úr öryggi í Þýskalandi? Allt eru þetta spurningar sem hafa vakið hatrömm skoðanaskipti á opinberum vettvangi og samfélagsmiðlum. Mestur ágreiningur virðist vera um sambandið við Rússa því þar skiptust menn næstum til helminga, 52% vildu nánara samband en 48% ekki. Kannski var þetta bara það fjarlægt að það var nærri tilviljun hvort menn sögðu já eða nei. 

20 þúsund sóttust eftir skoðanaskiptum við andmælenda

 Næstum tuttugu þúsund manns tóku þátt í könnun Die Zeit, og skráðu þar líka póstnúmer sitt og örlítið um sjálfa sig. Tölva vann úr niðurstöðunum og paraði saman þá sem voru mest ósammála en bjuggu í seilingarfjarlægð hvor frá öðrum. Því þennan haustdag sátu menn andspænis hvor öðrum og ræddust við undir fjögur augu, sumir í marga klukkutíma. Þetta var í þriðja sinn sem Die Zeit stóð fyrir þessu, og hefur verið kallað Deutschland spricht, Þýskaland talar. Hugmyndin varð til á ritstjórn Die Zeit vorið 2017 þar sem menn veltu því fyrir sér hvernig hægt væri að ná saman fólki á tímum þegar menn hafa vaxandi áhyggjur af skautun og togstreitu andsnúinna hópa. Sækjast sér um líkir, hefur löngum verið sagt en nú óttast margir hverjir að í stað þess að internetið opni og upplýsi almenna umræðu þá festist menn í bergmálsklefa þar sem þeirra eigin skoðanir enduróma. 

Pörun eins og með stefnumótaappi en ekki sóst eftir líkindum

Upp úr þessi spratt hugmynd um að setja upp spurningarnar á vefnum, viljugir skráðu sig og svöruðu og voru svo paraðir eftir svæðum og því hve mikið þá greindi á. Þessu hefur reyndar verið líkt við stefnumótaöpp nútímans. Í ár var það svo að pörin sem sett voru saman svöruðu að meðaltali fjórum og hálfri spurningu á ólíkan hátt. Þannig virtist lengra á milli þátttakenda en í fyrra og hitteðfyrra þegar þá sem voru paraðir saman greindi á í rúmlega þremur svörum af sjö. Þó að yfirskriftin sé Þýskaland talar þá verður hópurinn sem þarna gefur sig fram auðvitað til af sjálfum sér og samsetningin, þó fjölbreytt sé, er ekki alveg eins og þýska þjóðin. Karlar eru hlutfallslega fleiri þó að konunum hafi fjölgað og eins eru stórborgarbúar áhugasamari um samtölin en þeir sem í sveitunum búa. Reyndar segir í umfjöllun um spurningar ársins í ár að greinilegastur sé munurinn í svörunum milli aldurshópa, frekar en eftir kyni eða búsetu. Kemur kannski ekki á óvart að töluvert fleiri ungir Þjóðverjar telja að aldraðir lifi á kostnað þeirra yngri. 

Var þetta Mirko?

Die Zeit hefur svo skrifað um suma þátttakendur og hvað þeim fór á milli. Jochen Wegner ritstjóri vefútgáfu Die Zeit var sá fyrsti sem skráði sig til þátttöku, í upphafi bara til að prófa síðuna en ákvað svo að taka fullan þátt og skrifar um samtal sitt við Mirko. Wegner gaf það upp að hann væri karlmaður, eyddi frítíma sínum helst í sófanum, væri blaðamaður, hefði dálæti á japönskum mat og helst mætti þekkja hann af því að hann er hávaxinn, gráhærður og með gleraugu. Mirko er karlmaður, frítímanum ver hann í eldamennsku, tölvuleiki og að skemmta barninu, hann er vélamaður á þrítugsaldri með smekk fyrir fimmaurabrönduruum og hægt að þekkja hann af hringnum í miðnesinu. 

Innsýn í annars heim

Mirko er reyndar ekki rétt nafn mannsins sem Wegner ræddi við. Wegner lýsir því að áður en þeir settust niður hefði hann haft nokkrar áhyggjur af því hvort það myndi trufla samtalið að sjálfur er hann blaðamaður og líka vegna þess að þegar hann gúglaði Mirko fann hann lista yfir nýnaista í Saxlandi og sumum niðurstöðunum sem tengdust nafni hans hafði verið eytt. Engu að síður ákveða þeir eftir smá samskipti með rafpósti að hittast. Wegner lýsir því hvernig hann í raun verður aðeins vonsvikinn yfir því að þegar til kemur þá sker Mirko sig ekki svo frá öðrum íbúum í Prenzlauerberg í Berlín þó svo að hann hafi lýst skoðunum sem ekki er algengt að rekast á þar. Wegner segist með sjálfum sér hafa ákveðið að hann Mirko hlyti bara að eiga alnafna í Saxlandi. Hann lýsir svo samtali þeirra á kaffihúsinu, sem er yfirvegað og upplýsandi þó svo að þeir séu ósammála um margt, og að lokum hafa þeir að minnsta kosti fengið smáinnsýn í annars heim. Og reyndar var þetta Mirko á nasistasamkomunni, fimmtán ára gamall en segist ekki sami maður og þá. 

Borg og sveit

Önnur frásögn frá því haust er um samtal tveggja kjósenda Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel Kanslara sem eru  samt ósammála um flest, þar  það togstreitan milli borgar og sveitar sem helst er áberandi. Kona sem býr í Leipzig og karl sem býr í litlu þorpi skammt þar frá. 

Menn nálgast með samtali

Félagsvísindamaðurinn Armin Falk hefur gert könnun meðal þátttakenda í samræðunum og komist að því að þær hafa nokkur áhrif á skoðanir þeirra sem taka þátt og viðmælendur nálgast hvor annan nokkuð en alltaf verði til fólk sem tekur mjög harða og öfgakennda afstöðu. Auðvitað verði líka að taka tillit til þess að þeir sem á annað borð eru tilbúnir að setjast niður til samtals séu líklega opnari en þeir sem halda sér fast í jábræður sína og systur. Falk segir að það sem skipti mestu sé að fólk sé tilbúið að hlusta og það sé jafnvel mikilvægara en að tala. Flokkadrættir séu ekkert nýtt í þýsku samfélagi, menn geti horft aftur til þriðja og fjórða áratugar síðustu aldar. Á undanförnum árum hafi aðgreining aukist. Bil milli austurs og vesturs, ungra og gamalla, ríkra og fátækra, menntaðra og ómenntaðara hafi vaxið. Það sé minni blöndun í hverfum en áður og þeim sem hafa minni tekjur hafi verið ýtt út úr miðborgunum. Til að tryggja félagslega samheldni verði samfélagið að bjóða upp á vettvang þar sem fólk úr ólíkum áttum mætist. Falk nefnir þar til sögunnar herþjónustu sem ekki sé lengur skylda 

Svíar velta meðal annars fyrir sér úlfum

Þetta fyrirkomulag hefur breiðst nokkuð út síðan fyrstu samtölin áttu sér stað í Þýskalandi fyrir tveimur árum og til er síða þar sem rakin eru nokkur slík verkefni. Í ár hafa þúsundir Breta, Dana, Finna, Ítala og Belga til dæmis sest niður til samtals við manneskju sem er á margan hátt á öndverðum meiði. Síðar í nóvember má búast við að Svíar reyni að kryfja málefni dagsins, til dæmis hvort bensín sé of dýrt, hvort Svíar eigi að taka á móti færri flóttamönnum, ættu þeir að borða minna kjöt vegna loftslagsbreytinga, eru skattar of háir, á að banna betl og hver er afstaða manna til úlfa. 

Hvaða spurningar ætli kveiki helst í Íslendingum líklega væru þær svipaðar, varla úlfaveiðar en kannski kvótinn