Tvær ungar konur hryggbrotnuðu í bátsferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis í Vestmannaeyjum í síðustu viku, og þurfti önnur þeirra að gangast undir skurðaðgerð. Lögregla rannsakar málið og skipstjórinn hefur látið af störfum tímabundið.

Miðvikudaginn 11. maí síðastliðinn fóru um 100 starfsmenn Bláa lónsins í vorferð til Vestmannaeyja. Á meðal skemmtiatriða í ferðinni var bátsferð með ferðaþjónustufyrirtækinu Ribsafari sem notast við harðbotna slöngubáta í ferðum sínum. Ekki vildi betur til en svo að tvær konur á þrítugsaldri slösuðust alvarlega í ferðinni.

„Um var að ræða skipulagða ferð á vegum Ribsafari, eina af mörgum þennan dag. Og það liggur fyrir þegar þær koma í land að báturinn hefur orðið fyrir einhverju höggi sem verður til þess að tvær stelpur slasast,“ segir Aníta Óðinsdóttir, lögmaður Ribsafari ehf.

Voru sárþjáðar

Konurnar segja að báturinn hafi fallið um nokkra metra í ferðinni, með fyrrgreindum afleiðingum. Auk þess meiddist önnur þeirra í andliti þegar höfuð hennar skall í bátinn þegar hann kom niður. Konurnar voru sárþjáðar eftir ferðina og gátu hvorki staðið né setið og voru fluttar á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum þar sem læknir taldi að þær hefðu aðeins tognað í baki, og gaf þeim verkjalyf. Daginn eftir fór önnur þeirra í röntgenmyndatöku á Landspítalanum þar sem í ljós kom að hún hefði hryggbrotnað illa. Konan var drifin í aðgerð, svokallaða spengingu, þar sem skrúfum og plötum var komið fyrir í baki hennar. Konan verður rúmliggjandi næstu vikurnar og verður óvinnufær í sumar. Hin konan hryggbrotnaði einnig, en ekki eins alvarlega.

„Við settum okkur í samband við Bláa lónið og reyndum að ná í stelpurnar en án árangurs. Og við höfum öll verið af vilja gerð að vinna með Bláa lóninu og stelpunum,“ segir Aníta.

Atvikið var tilkynnt til Vinnueftirlitsins og lögreglu, sem rannsakar nú málið.

„Skipstjórinn hefur stigið tímabundið til hliðar á meðan á rannsókn málsins stendur.“

Hefur gerst áður

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var stífur norðvestanstrekkingur í Eyjum þennan dag, átta til fimmtán metrar á sekúndu og töluverður öldugangur. En var forsvaranlegt að fara út í þessu veðri?

„Eins og ég hef áður komið inn á var um að ræða eina ferð af mörgum þennan dag. Skipstjóri var búinn að meta stöðuna svo, ásamt öðrum starfsmanni Ribsafari, að þetta væri algjörlega óhætt,“ segir Aníta.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona atvik kemur upp hjá Ribsafari, en árið 2013 slasaðist farþegi á baki í ferð hjá fyrirtækinu.

„Já þetta hefur gerst tvisvar sinnum áður. Hins vegar var í bæði skiptin um að ræða bakveika einstaklinga. En svo það komi fram að þegar einstaklingar setjast í bátinn er farið yfir öryggisreglur með þeim. Og bakveikir einstaklingar eiga ekki erindi í svona sjóferð.“

Bláa lónið lítur málið mjög alvarlegum augum. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir það að ferðaþjónustufyrirtæki verði að hafa öryggismál í fyrirrúmi. Áhersla fyrirtækisins nú sé að veita starfsmönnunum sem slösuðust alla þá aðstoð sem mögulegt er. 

„Þetta er náttúrulega bara mjög leiðinlegt og við munum fara yfir alla verklagsferla til þess að koma í veg fyrir að svona gerist aftur,“ segir Aníta.