Tugir grindhvala strönduðu í fjörunni við Ytra-Lón á Langanesi í dag. Göngufólk tilkynnti lögreglu um strandið á fimmta tímanum í dag en verið getur að einhver tími hafi liðið frá því að dýrin syntu á land og þar til komið var að þeim.

Steinar Snorrason, varðstjóri hjá lögreglunni á Þórshöfn, segir að þetta séu á milli 50 og 60 grindhvalir. Einhver dýranna eru dauð en meirihlutinn á lífi. Unnið sé að því að koma þeim aftur út í sjó og verið sé að safna mannskap til að sinna björgunarstörfum. „Mér skilst að menn muni ekki eftir að það hafi orðið svona stórt strand á þessum slóðum, þó það þekkist að bæði hvalir og háhyrningar hafi rekið á land,“ segir Steinar en fyrir viku síðan synti háhyrningur í höfnina á Þórshöfn.

Uppfært kl. 21:38

Steinar sagði í samtali við fréttastofu að um tíu manns hafi verið við björgunarstörf í fjörunni í dag. Lítið hafi verið hægt að gera til að bjarga dýrunum og nú séu flestir hvalirnir dauðir. Um 15 til 20 dýr höfðu þegar drepist þegar grindhvalirnir fundust um fjögurleytið í dag og aðrir fylgdu þeim fljótlega eftir.