Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að dauðsföllum í Bandaríkjunum eigi eftir að fjölga næstu tvær vikurnar. Því ákvað hann í gærkvöld að framlengja harðar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í Bandaríkjunum út apríl. Langflest smit hafa greinst í Bandaríkjunum eða nærri 150 þúsund. 2.616 hafa látist.

 

Donald Trump hitti fréttamenn í rósagarðinum við Hvíta húsið. Hann þakkaði bandarísku þjóðinni fyrir standa saman á erfiðum tímum en ástandið ætti eftir að versna sagði hann. Dauðsföllum myndi fjölga og næði líklega hámarki eftir tvær vikur. Afar slæmt væri að lýsa yfir sigri of snemma. Trump sagði að ef ekkert væri að gert gætu tvær komma tvær milljónir Bandaríkjamanna látist í faraldrinum. Ef hægt væri að fækka dauðsföllum niður í hundrað til tvö hundruð þúsund væri það mikill sigur.

Ruglaði saman tölum um fjölda sýktra og látinna

Anthony Fauci, sérlegur ráðgjafi Hvíta hússins hefur sagt að milljónir Bandaríkjamanna gætu sýkst af veirunni og allt að tvö hundruð þúsund látið lífið í faraldrinum. Nú talar Trump um að allt að tvær komma tvær milljónir eigi eftir að deyja en með réttum aðgerðum sé hægt að ná því niður í tvö hundruð þúsund. Fréttaskýrendur telja reyndar fullvíst að forsetinn hafi ruglað saman tölum um fjölda sýktra og látinna.

Fjölmiðlar eiga að vera vingjarnlegri 

Forsetinn taldi fréttamenn í rósagarðinum of aðgangsharða, þegar þeir spurðu út í fyrri yfirlýsingar hans og sagði að þeir ættu að vera vingjarnlegri. Aðgangsharka þeirra væri ein ástæða þess að enginn treysti fjölmiðlum lengur.

Gagnrýndur fyrir viðbrögð sín

Trump sagðist jafnframt búast við því að daglegt líf yrði komið nær fyrra horfi frá 1. júní. Fyrr í vikunni sagðist hann vilja koma atvinnulífinu af stað þegar um páskana en nú hefur verið hætt við þau áform. Reyndar hafa yfirlýsingar Trumps verið ansi misvísandi og hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við útbreiðslu faraldursins. 

Óttast of fáar öndunarvélar

Framan af gerði Donald Trump lítið úr vandanum en nú hefur hann alveg snúið við blaðinu. Í rósaagðinum við Hvíta húsið í gær sagði hann að faraldurinn myndi ná hámarki eftir tvær vikur en sagði að í júní yrði þjóðin farin að sjá fyrir endann á honum. Hann boðar stórauknar aðgerðir til að bregðast við faraldrinum og að nú sé búið að samþykkja sérstaka hraðskimun sem skili niðurstöðu innan fimm mínútna. Allir heilbrigðisstarfsmenn verði skimaðir fyrir veirunni. Fyrr um daginn sakaði hann sjúkrahús um að hamstra byrgðir að óþörfu og það eitt og sér skapaði mikinn vanda. Óttast er að allt of fáar öndunarvélar verði tiltækar þegar faraldurinn nær hámarki.

Þjóðin verður að standa saman 

Nú segir Donald Trump að þjóðin verði að standa saman. Samstaða þjóðarinnar sé aðdáunarverð. Hann sé stoltur að fá að vera forseti þessarar merku þjóðar.