Sumarið 1943 fundu þrír sjómenn frá Vestmannaeyjum járntunnu í sjónum vestur af Heimaey. Þeir drógu tunnuna um borð og fundu spíralykt af innihaldinu. Þetta var upphafið að mikilli sorgarsögu í Vestmannaeyjum, því nokkrum dögum síðar höfðu 8 karlmenn og ein kona týnt lífi eftir að hafa drukkið spírann í tunnunni. Auk þeirra veiktust tugir manna eftir spíradrykkju.

Ragnar Jónsson læknir hefur kynnt sér þessa sorgarsögu sem lá í þagnargildi í Vestmannaeyjum árum saman. Hann sagði hlustendum Morgunvaktarinnar frá þessum máli.

Ragnar segir að skipverjarnir sem fundu tréspírann hafi ekki verið vissir um hvort spírinn í tunnunni hafi verið drykkjarhæfur. Eftir að hafa kannað málið lauslega töldu þeir að óhætt væri að neyta spírans. Þeir létu því fjölda manns fá spíra í flösku fyrir þjóðhátíð sem stóð fyrir dyrum í Herjólfsdal.

Það skipti engum togum að dagana eftir þjóðhátíð létust 9 manns í Eyjum, 8 karlar og ein kona. Fjölmargir veiktust og voru kvalir þeirra sem voru lagðir inn á sjúkrahúsið svo miklar að óp þeirra og öskur heyrðust langar leiðir.

Ragnar segir að málið hafi verið sveipað þagnarhjúpi um áratugaskeið í Vestmannaeyjum. Hann hefur skoðað þetta mál um 2ja áratuga skeið og rætt við marga Vestmannaeyinga sem muna glöggt eftir þessari harmsögu.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ragnar í spilaranum hér að ofan.

Fjallað eru um rannsókn Ragnars í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.