Það eru liðin sextíu ár síðan frægasta og vinsælasta jazzplata allra tíma, Kind of Blue, með Miles Davis, var hljóðrituð í New York. Platan er enn að seljast, hún er enn á fóninum á kaffihúsum og börum víða um heim.


Freyr Eyjólfsson skrifar:

Kind of Blue er gjarnan talið vera höfuðverk jazzmeistarans Miles Davis. En hvað er það við þessa seiðandi tónlist sem heillar kynslóð eftir kynslóð? Freyr Eyjólfsson í New York segir nú frá

Á vordögum 1959 sáust skuggalegir menn í jakkafötum, með sólgleraugu og lakkrísbindi,  með sígarettu í munnvikinu, rölta inn í hljóðver útgáfufyrirtækisins Columbia við þrítugasta stræti í Manhattan. Þeir stilltu sér upp í upptökusalnum, hljómsveitastjórinn sagði ekki mikið; jú, það heyrðist eitthvað lágt hvísl, hann settist niður við píanóið spilaði mjög einfaldar nótur, dró síðan upp trompettinn og blés – og innan skamms var hljómsveitin komin af stað. Tónlistin spratt fram eins og galdur.

Spunnið eftir tónskölum

Þarna voru mættur Miles Davis ásamt hljómsveit: saxafónleikararnir John Coltrane og Julian Cannonball Adderly, bassaleikarinn Paul Chambers, Jimmy Cobb á trommur og Bill Evans við pínaóið ásamt Wynton Kelly. Chambers var búinn að vera með Miles í ein fjögur ár, en hinir voru svo að segja nýlega byrjaðir að vinna með Miles. Sú tónlist sem ómaði í borginni á þessum tíma var bíboppið og hardboppið, sem var runnið undan rifjum þeirra Charlie Parker, Thelonius Monk og Dizzy Gillespie. Hröð, brjáluð og framúrstefnuleg jazztónlist, þar sem spunnið var af fingrum fram, tíðar og óvæntar hljómskiptingar. Flókin tónlist sem bæði reyndi á hlustendur en ekki síst hljóðfæraleikara. Bíboppið var vinsælt en umdeilt, sumum fannst þetta vart vera tónlist. Miles hafði auðvitað tekið þátt og spilað þessa tónlist grimmt en var nú orðin leiður á þessum látum og vildi taka tónlistina í aðra átt. Hann hafði tileinkað sér hugmyndir og spunakerfi George Russels þar sem hið hefbundna dúr og moll hljómakerfi var kastað fyrir róða og fyrir vikið opnaðist nýr heimur þar sem hægt var að spinna og leika af fingrum fram – með öðrum hætti en áður hafði tíðkast. Þetta er svokallaður „modal jazz“ þar sem er spunnið eftir tónskölum frekar en ákveðinni hljómaskiptingu. Byltingarkennd aðferð sem bjó til nýtt tungumál í tónlist og þar með var jazzinn kominn í allt aðra átt en blús og popptónlist. Kind og Blue er því spunaplata. 46 mínútur af spuna. Það er talið í og menn spinna. Enginn veit hver niðurstaðan er fyrirfram, menn svara og kalla, hlusta, treysta á hvern annan., bregðast við og skapa eitthvað alveg nýtt.  

Það eru 60 ár liðin síðan Kind of Blue var hljóðrituð og hún er enn talin eitt mesta meistaraverk nútíma-tónlistarsögunnar. Fyrir stuttu síðan valdi breska ríkisútvarpið hana bestu jazzplötu allra tíma. Hún hefur haft áhrif á fjölmarga tónlistamenn: Quincy Jones kallaði hana „My daily orange juice“ og hljómborðsleikarinn Richard Wright segir Kind of Blue hafa verið fyrirmynd þegar Pink Floyd hljóðritaði meistaraverk sitt Dark Side of the Moon.

Miles hverfur í skuggann

Miles Davis var á tímamótum í lífi sínu þegar þessar upptökur fóru fram, 32 ára, grindhoraður eftir harða heróinneyslu; hann var reyndar búinn að þurkka sig upp. Þrátt fyrir vinsældir og virðingu naut ekki mikils trausts, var álitinn dóphaus, furðufugl og erfiður í samskiptum. Hann var í raun kominn á síðasta sjens hjá Columbia útgáfufyrirtækinu á þessum tíma. Miles hafði verið helsta og skærasta stjarna jazzheimsins, eitursnjall og sérstakur trompett-leikari, en umfram allt framúrskarandi höfundur og hljómsveitarstjóri. Hafði sent frá sér meistaraverk í röðum, breytt jazzheiminum með hverri nýrri plötu.  Duke Ellington kallaði hann Picasso jazzins. En nú var kominn annar gæi í bæinn, nýr keppninautur, Chet Baker, sem hrifsaði til sín sviðsljósið, og Miles virtist vera hverfa í skuggann.

Stórkostleg tónlist og listaverk

Hljómsveitin kom fyrst saman annan mars 1959 í Columbia hljóðverinu til þess að taka upp  Kind of Blue. Enginn hafði hugmynd um hvað Miles vildi beinlínis gera. Hann hafði mætt snemma um  morguninn og spilað á píanóið, hripað niður örfára línur – rétt félögum sínum litla bréfssnepla – og svo var bara talið í. Engar æfingar, enginn undurbúninur, engar leiðbeiningar eða nótur. Í ævisögu sem Miles Davis skrifaði og gaf út 1989 segir hann:

Þegar tónlistarfólk er sett í óvenjulega stöðu, og það er beðið um að gera eitthvað sem það hefur aldrei áður gert – þá gerist eitthvað. Þá verður til stórkostleg tónlist og listaverk.

Nýr tónn sleginn

Dagskipun Miles Davis var aðeins ein, út með allar flækjur og læti, ekkert bíbopp, hér skyldi einfaldleikinn ráða ferðinni. Hljómsveitin fékk enga hljóma eða strúktur til að spila eftir bara ákveðna tónaröð, sem gaf hljóðfæraleikurum aukið frelsi og ráðrúm. Enda voru þeir engir aukvisar, einhverjir snjöllustu jazzmenn sögunnar, sem fóru af stað með Miles í þessa einstöku vegferð og göldruðu fram þessa einstæðu tónlist. Einfaldar stemmur, lágstemmt spil, seiðandi og kannski stundum svolítið sorgmædd stemning. Kind of Blue. Miles Davis útskýrði raunar síðar að þessi titill vísaði í ofbeldi og ömurleika sem þeldökkir Bandaríkjamenn þyrftu að upplifa hvern dag – en hann hafði nýlega orðið fyrir árás úti á götu, laminn í klessu fyrir að tala við hvíta stúlku.

Kind of Blue kom síðan út um sumarið 1959. Hún var á skjön við allt sem var að gerast í jazzheiminum. Nýr tónn hafði verið sleginn. Einföld, minimalísk, viðkvæm og falleg tónlist. Hún hélt áfram að heilla fólk út um allan heim, kynslóð eftir kynslóð. Þótt heil sextíu ár séu liðin getur maður ennþá týnt sér, í þessari draumkenndu fallegu tónlist, sem heyrist á Kind of Blue.