„Í stað þess að kíkja á Avengers í bíó með vinum eða hlusta á kvöldsöguna með fjölskyldunni þá getum við flett upp Music for Cats á streymisveitunni og átt sams konar kvöld með kettinum,“ segir Tómas Ævar í nýjum pistli sínum um afþreyingu fyrir ketti.


Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Flökkusaga gengur nú ljósum logum um stræti og torg þess efnis að internetið tilheyri köttum. Að internetið sé, þegar allt kemur til alls, búið til fyrir ketti. Raunin er kannski önnur en kettir eru óneitanlega plássfrekir á alnetinu og ef maður ratar inn í þessa mergð kattskylds efnis má sjá að til er fjölskrúðugt samfélag þarna úti fyrir ketti. Eins konar samfélag inni í samfélagi.  

Kettir eru ekki aðeins gæludýr mannsins heldur eru þeir hægt og rólega að verða að fullgildum neytendum í samfélagi okkar, og þeirra. Kettir er frjálsir eins og við, það er að segja þeim er ekki skylt að vera í bandi og í fylgd með eigendum sínum. Við erum mjög dugleg að virða grunnþarfir þeirra – eins og fyrir mat og vatn, heilsugæslu, svefnfrið og félagsskap. En handan nauðsynja þá virðast þeir hafa aðgang að einkennilega margbreytilegri munaðarþjónustu. Í heiminum eru til kattakaffihús, kattafélagsmiðstöðvar, kattafegurðar- og klippistofur, kattanuddstofur, kattaveitingahús. Við framleiðum kattanammi, kattaklæðnað, kattatískuklæðnað, kattavímuefni og meira að segja kattatónlist. 

Og þá er ég ekki að tala um tónlist sem er samin um ketti eins og lögin Cat Scratch Fever, The Cat in the Window eða Tommy the Cat. Nei, ég er að tala um tónlist sem er samin sérstaklega fyrir ketti. 

Tónverk fyrir himingeiminn og tónlist fyrir kisur

Í síðustu viku fjallaði ég um kanadíska tónlistarmanninn Mort Garson sem samdi tónlist fyrir tunglferðalög, tónlist sem túlkar stjörnumerki og hulduheima, og tónlist fyrir plöntur og fólkið sem unnir þeim. Í vikunni benti síðan félagi minn mér á tónlist sem samin er sérstaklega fyrir ketti. Og í dag langar mér að fjalla um sellóleikarann, tónlistarstjórnandann og tónsmiðinn David Teie sem sérhæfir sig í að búa til þessa sértæku tónlist fyrir ketti. 

Tónlist David Teie hljómar eins og þægilegt tónverk. Í bakgrunni er strengjaómur og einkennilegur titringur sem minnir á mal í köttum. Hálf óreglulegur taktur kemur og fer. Og efstu tónarnir eru leiknir á fiðlu sem kallast á við dýpri tóna sellósins. Þessi tónlist er óneitanlega falleg en á sama tíma ögn skrýtin. Þetta er ekki það sem við eigum að venjast enda er þetta ekki ætlað okkur. Þetta er eitthvað annað og nýtt. 

Hvað vilja kettir heyra?

Til að búa til tónlist fyrir ketti lagðist David Teie í umfangsmikla rannsóknarvinnu. Augljóslega hefur hann þurft að spyrja sig spurninga á borð við: Hvernig tónlist vilja kettir eiginlega hlusta á eða hvers konar tónlist skildu kettir fíla? En svo þarf að grafa dýpra og spyrja sig: hvernig heyra kettir? Hvaða tíðnisvið skynja eyru þeirra og hvaða tíðni þykir þeim þægilegt að heyra? En þessar spurningar gætu allt eins átt við um manneskjur. Hvernig heyrum við eiginlega og hvað viljum við heyra í tónlist? 

Hjartað slær taktinn

Árið 2013 gaf David út bókina Human Music þar sem hann setur fram eins konar kenningu um þau hrif sem við verðum fyrir þegar við heyrum tónlist. Kenningin leitar til líffræðinnar og skoðar þróun heyrnar í móðurkviði. Áður en maðurinn fæðist er talið að fóstrið læri að skynja takt með því að hlusta á hjarta móður sinnar slá en einnig heyrir það óminn af rödd hennar og við fæðingu leggur heyrn manneskjunnar sérstaka áherslu á það tónsvið sem tilheyrir röddinni. David dregur þær ályktanir að við leitum í svipuð hljóð þegar við hlustum á tónlist. Það er kannski ekki meðvitað en slík hljóð vekja ákveðin líkamleg hrif innra með okkur og þeim fylgja tilfinningatengsl við tónlistina sjálfa. Samkvæmt því er trommuleikur í tónlist í nokkurs konar frumspekilegu sambandi við þennan hjartarytma móðurlífsins. Og flestar laglínur sem við höldum upp á fara einnig fram á tónsviði raddarinnar. 

Kattartónlist Davids tekur mið af þessari kenningu og með því að rannsaka heyrn katta gat hann komist að því hvaða hljóð kettir vilja heyra og hvaða hljóð þeim ætti að þykja þægilegt að hlusta á. Heyrn katta er talin þróast að miklu leyti eftir fæðingu og er þar af leiðandi bundin við hljóð í nærumhverfi nýfæddra katta en það eru hljóð eins og mal móðurinnar, fuglasöngur, hljóðin sem heyrast þegar kettlingur er á spena og að sjálfsögðu hið reglulega mjálm. Tíðnisvið þessara hljóða er ramminn sem heyrn katta leggur mikla áherslu á. Slík hljóð kalla fram líkamleg og jafnvel tilfinningaleg viðbrögð frá köttunum. Þar af leiðandi leggur David Teie áherslu á að skapa hljóðmyndir sem innihalda slík hljóð og spila tóna sem kettir greina og vilja heyra.

Hjartsláttur og mal

En það er hægt að setja út á eitt við þessa plötu. Hljóðfæraleikurinn á henni á það til að tjá þessi grunnhljóð kattaheyrnar nokkuð skýrt og eiginlega herma eftir henni. Malandi bakgrunnurinn hljómar á örfáum stöðum alveg eins og malandi köttur og takturinn virðist einnig, öðru hverju, hreinlega geta verið kettlingur á spena. Þetta hljómar ekki illa en maður veltir fyrir sér: það er sjaldan að við heyrum hjartsláttarhljóð notuð sem takt fyrir tónlist fyrir fólk eða óljósa ómandi rödd sem laglínu. Það er alltaf smá táknræn fjarlægð. 

En það kemur samt eiginlega ekki að sök, því samkvæmt rannsókn sem gerð var við Háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum taka kettir þessari tónlist vel. Þeir kettir sem fengu að hlýða á plötuna lögðu grannt við hlustir og sýndu nýju tónunum mikinn áhuga. Einnig er hægt að sjá viðbrögð katta við tónlistinni á tugum Youtube-myndbanda, en þar má sjá þá sækjast eftir nálægð við hátalarana sem tónlistin er spiluð úr en einnig má líka sjá ótal skemmtileg svipbrigði. Þeir kippa sér allavega ekki mikið upp við þennan frumspekilega realisma tónlistarinnar. 

Stefnir að því að gera tónlist fyrir fleiri dýr

Kattatónlist Davids Teie er aðeins byrjunin. Hann hyggst búa til tónlist fyrir sem flest dýr en hver tegund er sérstök og það kostar mikinn tíma að komast að tónlistarsmekk hverrar dýrategundar. En annað fólk er þegar farið að þróa sams konar tónlist. Til er tónlist fyrir hunda og í síðustu viku komumst við að því að til er tónlist fyrir plöntur. Þessar tilraunir eru spennandi og á sama tíma nokkuð krúttlegar, en þær bera með sér mikla merkingu. Þessar tilraunir eru brýr. Þær tengja saman þessi umdeildu skil sem stundum eru sögð liggja milli manns og náttúru. Í gegnum tónlistina finnum við okkur í öðrum dýrategundum og enn fremur finnum við aðrar dýrategundir í okkur sjálfum. Tónlist af þessu tagi opnar á mikilvægan skilning og þegar við hlustum á hana með köttunum okkar eða plöntunum okkar getum við átt mjög þýðingarmikla stund með gæludýrinu eða plöntunni. Í stað þess að kíkja á Avengers í bíó með vinum eða hlusta á kvöldsöguna með fjölskyldunni þá getum við flett upp Music for Cats á streymisveitunni og átt sams konar kvöld með kettinum.