Gestir Lestarklefans eru sammála um það að tölvuleikurinn Death Stranding sem var hannaður af Hideo Kojima sé erfiður, hægur og langdreginn í byrjun en þegar fólk komist yfir ákveðinn þröskuld sé unaðslegt að sökkva sér ofan í hann. Þá segja þau að tölvuleikjum almennt sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing í umræðu fjölmiðla.
Sögusvið Death Stranding er Bandaríkin einhvern tímann í framtíðinni eftir að hamfarir ríða yfir og valda því að heimur hinna lifandi og hinna dauða skarast og Bandaríkin sundrast. Íbúarnir hafast við í neðanjarðarskýlum hér og þar til að komast undan ósýnilegum verum sem sveima yfir eyðilegum löndum en allt landslag í leiknum er byggt á Íslandi. Spilarar stýra Sam Porter í leiknum, manni sem þjáist af sjúkdómi sem gerir honum kleift að koma auga á ósýnilegu verurnar. Hann fær það verkefni að sameina Bandaríkin á ný með því að sendast með pakka milli neðanjarðarbyrgja og laga internettengingar fólks.
„Ég svona lærði að elska hann. Ég er mjög ánægður með útkomuna en það tók mig tíma að komast inn í hann. Þetta er svona eins og ef vinur þinn segir við þig að þú verðir að horfa á einhverja sjónvarpsþætti en fyrsta serían sé samt frekar slöpp. Í byrjun leiks ertu mikið að labba á milli staða og afhenda fólki pakka og mikið er um löng myndskeið sem þróa söguþráð og stemningu en engin spilun á sér stað. Ég held þessi leikur sé merki um að leikjamarkaðurinn og tölvuleikir séu að þroskast og ná á stóra markaðinn, til fleiri spilara,“ segir Bjarki Þór Jónsson. Honum finnst mjög eðlilegt að skiptar skoðanir sé um leikinn og veltir því fyrir sér hvort fólk geri óeðlilega miklar kröfur til þess að tölvuleikir séu stanslaust skemmtun og einungis það. „100% afþreying og ekkert annað. Í Death Stranding leið mér stundum eins og honum. Ég þarf að fara með þennan pakka. Mig langar það ekkert rosalega mikið, ég er búinn að fara með fullt af pökkum. En ég þarf að gera það.“ Júlía Hermannsdóttir tekur undir með honum. „Þetta er gríðarlega góður leikur í grunninn fyrir þá sem eru þolinmóðir.“
Gestir Lestarklefans telja mikið vanta upp á að tölvuleikir séu teknir alvarlega sem menningarafurð í íslenskum fjölmiðlum. „Gagnrýni í blöðum, sjónvarpi og útvarpi, þá er sjálfsagt að fjalla um leikhús, bókmenntir, tónlist og kvikmyndir en nánast aldrei tölvuleiki,“ segir Bjarki. „Þetta er búið að vera þrætuepli í mörg ár, hvort hægt sé að skilgreina tölvuleiki sem list,“ segir Geir Finnsson. „Við göngum út frá því að kvikmyndir, tónlist og bækur séu tjáning listamannsins. En það er erfiðara að segja með tölvuleiki. Svo er það þessi stimpill á afþreyinguna líka, tölvuleikir eru miklu nýrri en bíómyndin, bókmenntir og tónlist.“
„Þó að sem tölvuleikur sé Death Stranding alls ekki fullkominn þá er þetta ótrúlega aðdáunarverð tilraun hjá Hideo Kojima til nýsköpunar,“ segir Júlía Hermannsdóttir. „Það er allt svo ótrúlega vandað í honum, þrívíddarteiknunin, landslagið, manneskjurnar og fötin. Það er kvikmyndataka, Mads Mikkelsen talar inn á eina persónuna, og svo er tónlistin eftir Low Roar sem bjó lengi á Íslandi.“