Töluvert meiri samdráttur verður í efnahagslífi heldur en Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir. Þetta segir aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Fækkun ferðamanna er skýring en þeir voru tuttugu og fjórum prósentum færri í maí miðað við sama mánuð í fyrra.

Sífellt fleiri ferðamenn hafa sótt landið heim síðustu ár. Þannig fjölgaði erlendum ferðamönnum í Leifsstöð í maí 2013 um tæp nítján prósent frá maímánuði árið áður. Stígandi var í þessari fjölgun fram í maí 2017 þá hægði á fjölguninni. Í maí síðastliðnum varð hins vegar viðsnúningur því tæplega tuttugu og fjórum prósentum færri ferðamenn komu hingað en í sama mánuði árið áður. 

Fækkunina má líka greina í greiddum gistinóttum. Í maí voru þær rúmlega tíu prósentum færri en í maí í fyrra. Mestu munaði um fækkun í heimagistingu sem var tuttugu og níu prósent.

Þeir sem þjónusta ferðamenn merkja fækkunina. 

„Miðað við það sem við heyrum frá félagsmönnum okkar þá lítur út fyrir að þetta sé 10-20 prósent samdráttur núna á þessu ári frá því í fyrra,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að ferðamönnum fækki ekki nema um tíu prósent. 

„Mér sýnist nú því miður að það muni ekki ganga eftir. Við lögðum mat á þróunin í þjóðhagsspá sem kom út í júníbyrjun og þar vorum við að gera ráð fyrir í kringum fimmtán prósent fækkun ferðamanna á árinu í heild,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Seðlabankinn spáir því að efnahagslegur samdráttur á árinu verði 0,4 prósent en gengur það eftir?

„Ég er svolítið hræddur um að bæði verði samdrátturinn svolítið meiri á þessu ári en var spáð og vöxturinn verði að sama skapi minni á næsta ári,“ segir Jón Bjarki.

Íslandsbanki gerir ráð fyrir að samdrátturinn verði núll komma sjö prósent.

„Eftir því sem línurnar skýrast hvað varðar seinni hluta ársins þá er sú spá bjartsýn ef eitthvað er. Ég er hræddur um að samdrátturinn geti orðið eitthvað meiri. Ekki óvarlegt kannski að gera ráð fyrir upp undir prósentu,“ segir Jón Bjarki.

„Það eru ekki neitt mjög bjartar horfurnar fyrir ferðaþjónustuna, sérstaklega fyrir flugreksturinn, svona til skemmri tíma,“ segir Jón Bjarki.

Erfiðleikar séu í flugrekstri á alþjóðavísu. Til að mynda vandræði við Max-vélarnar, hækkun á eldsneytisverði og neikvæð athygli að flugrekstri vegna loftslagsmála.

„Manni sýnist flugfélög eiga í mörg hver í töluverðum erfiðleikum í dag og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig áður en þau ráðast í verulega aukið framboð, sérstaklega til lands eins og okkar sem er að fá á sig skell þessa dagana,“ segir Jón Bjarki.