Kafbátur á vegum embættis Ríkislögreglustjóra tók í dag rúmlega hundrað þúsund myndir af botni Þingvallavatns, í leit að líki ferðamannsins sem talið er að hafi fallið í vatnið fyrir 12 dögum. Lögreglumaður hjá sérsveitinni vonar að á myndunum finnist það sem leitað er að.
Óttast er að belgíski ferðamaðurinn Bjorn Debecker hafi fallið í Þingvallavatn laugardaginn 10. ágúst, en uppblásinn kajak hans og bakpoki fundust við vatnið þann sama dag. Leit að honum hefur ekki borið árangur og í dag var ákveðið að gera tæplega mánaðar langt hlé á formlegri leit. Sérsveit Ríkislögreglustjóra og Björgunarfélag Árborgar gerðu lokatilraun í bili í dag, með aðstoð kafbáts.
„Leitarskilyrði í dag hafa verið mjög góð,“ segir Arnar Þór Egilsson, kafari og lögreglumaður hjá sérsveit Ríkislögreglustjóra, sem stýrði aðgerðum í dag. „En leitarsvæðið sem við erum að fara yfir er frekar djúpt og mikið svæði sem við þurfum að fara yfir. Þannig að það hefur verið dálítið erfitt.“
Þannig að þetta er dálítið eins og að leita að nál í heystakki?
„Já það má eiginlega segja það.“
Mikil vinna
Þið eruð með kafbát hérna í dag, hefur hann hjálpað mikið?
„Já við fengum lánaðan kafbát frá fyrirtækinu Teledyne. Hann er gerður fyrir 1.000 metra dýpi þannig að það er ekki vandamál hér. En aftur á móti er svæðið stórt, en þessi bátur á eftir að hjálpa okkur að afla gagna og sjá fyrir okkur betur hvernig botninn er og vonandi finna það sem við erum að leita að.“
Kafbáturinn tekur bæði sónarmyndir og venjulegar ljósmyndir. Hann var forritaður til þess að leita á fyrirfram ákveðnu svæði í vatninu, sem talið var líklegast til árangurs. Á þeim um það bil 10 klukkutímum sem hann var í notkun í dag tók hann gríðarlegan fjölda mynda á svæði sem nær yfir einn ferkílómeter og niður á 80 metra dýpi.
„Við eigum von á að úr þessum leitarkössum sem búið er að setja upp muni safnast yfir 100.000 ljósmyndir.“
Og það á þá eftir að fara yfir þær - það verður heilmikil vinna?
„Já næstu dagar fara í rýningu gagna og að skoða hvað á þeim er.“
Nú hefur hlé verið gert á leitinni en ef eitthvað kemur í ljós á myndunum, þá verður það væntanlega kannað betur?
„Já það yrði þá annað verkefni sem við yrðum að vinna að,“ segir Arnar.