Það tók þrjá daga að draga burðarvirki nýrrar brúar yfir Eldvatn í Skaftártungu. Gert er ráð fyrir að brúin verði opnuð í haust.
Gamla brúin yfir Eldvatn er ónýt að mati Vegagerðarinnar en hún er verulega löskuð eftir Skaftárhlaup árið 2015. Framkvæmdir við nýja tvíbreiða brú hófust á síðasta ári og var burðarvirki loks dregið yfir ána um helgina.
„Þetta er óvanalega stórt burðarvirki sem er dregið út í heilu lagi enda tók þetta okkur alveg þrjá daga að mjaka þessu yfir. Brúin er byggð upp á landi, sett saman og síðan tjökkuð yfir í rólegheitunum,“ segir Einar Már Magnússon, umsjónarmaður hjá Vegagerðinni. Brúin er byggð í Póllandi.
Áætlaður kostnaður er rúmar 600 milljónir. „Við þurfum svona mánuð í viðbót til að klára brúnna síðan á eftir að klára vegina veggja megin við. Við erum að tala um að í svona byrjun september verði þetta allt saman klárt,“ segir Einar Már jafnframt.
Brúarstæðið hefur verið gagnrýnt og því haldið fram að bakkinn sunnan megin sé lélegur. Breytingar verða á landslaginu og farvegi árinnar í hverju hlaupi. Einar segir að þessi staðsetning hafi verið sú eina sem kom til greina. „Hinn valkosturinn er þá fleiri kílómetra nýlagning vegar einhverstakar upp undir fjöllum. Þannig þetta var talið vera besti kosturinn,“ segir Einar. „Það er hægt að gera einhverjar ráðstafanir til að styrkja í kringum brúnna þannig við höfum engar áhyggjur af þessu. Sérstaklega af því staðan er þannig að þetta er eini staðurinn.“