Ásakanir um alvarleg kynferðisbrot urðu til þess að Þórður Ásmundsson, sem tilkynnt var á fimmtudag að tæki við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tekur ekki við starfinu. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur ákváðu þetta um helgina og var stjórn Orku náttúrunnar upplýst um málið.
Á fimmtudaginn var tilkynnt að Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, hefði verið rekinn vegna óviðeigandi framkomu við samstarfsfólk sitt. Orkuveitan hefur staðfest að ástæða uppsagnarinnar hafi verið tölvupóstar sem Bjarni Már sendi á kvenkyns undirmenn sína. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagði að stjórnin hafi brugðist við um leið og tilkynnt hafi verið um hegðun Bjarna Más og honum umsvifalaust sagt upp.
Um leið var tilkynnt að Þórður Ásmundsson tæki tímabundið við af Bjarna Má. Þórður hafði gegnt starfi forstöðumanns innan Orku náttúrunnar. Seint á föstudag fengu stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur upplýsingar um að Þórður væri sakaður um alvarleg kynferðisbrot. Í framhaldinu var ákveðið að Þórður færi í leyfi frá störfum og var stjórn Orku náttúrunnar tilkynnt um það.
Fréttastofan hefur fengið það staðfest að ásakanirnar um kynferðisbrot tengist ekki starfi hans hjá Orku náttúrunnar og eigi að hafa gerst áður en hann hóf þar störf.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, vill segja það eitt að Orkuveitan hafi fengið upplýsingar um málefni tengd Þórði seint á föstudag. Þá varð þegar ljóst, segir Eiríkur að Þórður tæki ekki við stöðu framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, eins og áður hafði verið ráðgert. Hann sé nú í leyfi og framhaldið óvíst. Ekki liggi fyrir neinar kvartanir frá samstarfsfólki vegna Þórðar.
Í dag var tilkynnt að Berglind Rán Ólafsdóttir tæki við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. Ekki náðist í stjórn Orkuveitunnar vegna málsins.