Bandaríska dagblaðið New York Times hefur ákveðið að hætta birtingu skopmynda í blaðinu. Ástæðan er vaxandi gagnrýni á beittar skopmyndir og steininn tók úr nýlega þegar blaðið birti skopmynd af Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Þá rigndi ásökunum um gyðingahatur yfir ritstjóra blaðsins.
Bogi Ágústsson ræddi tjáningarfrelsið á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og tiltók nokkur dæmi.
Hann sagði það ákaflega sorglega þróun þegar dagblöð tækju þá ákvörðun að hætta birtingu skopmynda. Þær gegni mikilvægu hlutverki í fjölmiðlum. Í gegnum þær er oft hægt að koma hárbeittri ádeilu á framfæri við lesendur, ádeilu sem oft kemst síður til skila í löngum texta. Auk þess sem velheppnuð skopmynd sameinar húmor og gagnrýni.
Þá vék Bogi sögunni til Rússlands. Þar var rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov handtekinn og fangelsaður í síðustu viku og honum gefið að sök að hafa framleitt og selt eiturlyf. Rússneskir fjölmiðlar brugðust ókvæða við og fordæmdu handtökuna, nánast allir sem einn. Rússnesk stjórnvöld gáfu eftir, viðurkenndu að mistök hefðu verið gerð og leystu Golunov úr haldi.
Henrik Sass Larsen, einn af framámönnum danska jafnaðarmannflokksins hefur dregið sig út úr stjórnmálum tímabundið, vegna þunglyndis. Hann sakar fjölmiðla um að eiga mikla sök á þunglyndinu.
Og hér á landi hefur meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis samþykkt frumvarp sem dregur úr heimildum fjölmiðla til þess að greina frá því sem fram fer í dómsölum landsins.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Boga í spilaranum hér að ofan.