„Þetta hefur jafnvel vakið meiri athygli en ég bjóst við, og þetta er mjög eldfimt,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson en Hatari hefur valdið usla í aðdraganda Eurovision í Tel Aviv.

„Ákveðin orð þykja gildishlaðin, og vekja mikla athygli,“ heldur Matthías áfram í viðtali við Gísla Martein. „Ég sagði rétt svo orðið hernám á fyrsta blaðamannafundinum og í kjölfarið erum við alltaf sagðir „berorðir“. Við lýstum ferð okkar til Hebron og því sem við sáum þar, aðskilnaðarstefnu, og það var önnur fyrirsögn, allavega í ísraelskum fjölmiðlum. Blaðamenn hafa síðan spurt um það. Hingað til hefur okkur tekist að setja keppnina í stærra samhengi, og það var markmiðið,“ segir Matthías.

„Við vinnum hart að því að halda því þannig,“ bætir Klemens við. „Tipla á tánum á þessari línu sem enginn veit hver er.“ Hann tekur undir það sem margir hafa sagt að Eurovision sé eins og sápukúla, einangraður glimmerhliðarheimur með litla teningu við venjulegt líf. Matthías segir að oft sé talað um Tel Aviv sem búbblu líka, Hatari sé því staddur í sápukúlu sem er innan í sápukúlu.

„Fólk hér innan hennar finnst þetta vera það mikilfenglegasta og stórkostlegasta í heimi. Svo fórum við til Betlehem í gær, þar var maður sem hafði einhverja óljósa mynd um hvað Eurovision væri, en hann hefði hvort sem er ekki geta farið inn í borgina að sjá keppnina þannig honum var slétt sama.“ Hann segir að Hatari sé stöðugt að reyna að spegla sig í ólíkum sjónarmiðum og pólum. Og hann er vígreifur fyrir þriðjudagskvöldinu. „Ég upplifi mig öruggan á sviðinu, þetta er ekki eins geigvænlega hryllilegt og maður hefði ímyndað sér. Allt tollir mjög vel í sviðsetningunni, held við séum örugg í þessu.“