Það er langt til seilst að saka íslensk stjórnvöld um ábyrgðalausa fiskveiðistjórnun. Þetta segir sjávarútvegsráðherra. Það sé tímaskekkja að hóta Íslendingum refsiaðgerðum vegna makrílveiða. Nær væri að verja orkunni í samningaviðræður. Íslendingar munu ekki sitja hjá meðan aðrar þjóðir veiði úr sameiginlegum makrílstofni, segir sjávarútvegsráðherra.
Chris Davies, formaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins, segir að til greina komi að beita Íslendinga og Grænlendinga refsiaðgerðum ef löndin minnka ekki makrílkvóta sinn. Þetta kemur fram í breskum fréttamiðlum. Davies segist hafa boðað nefndarmenn til fundar í byrjun næsta mánaðar til að ræða aðgerðir ef löndin draga ekki í land.
„Ég hef boðið þessum ágæta þingmanni að koma og heimsækja okkur Íslendinga og fara yfir okkar röksemdir í málinu og kynna sér málið frá okkar hlið. Ég hef ekki fengið viðbrögð við því enn en ég vænti þess að því verði vel tekið því það er tímaskekkja í mínum huga að eyða tímanum í þras og þvinganir ef þær eru til umræðu heldur að einbeita sér að því að nýta orkuna til þess að semja,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Davies segir miklu skipta að styðja skoskar útgerðir. Fram til þessa hafi skoskir sjómenn sagt að Íslendingar grípi til aðgerða á meðan Evrópuþingið tali. Núna ætli þingið sér að grípa til aðgerða. Davies fer hörðum orðum um Íslendinga og Grænlendinga og segir það fyrirlitleg áform ríkjanna að auka veiðarnar. Davies sakar Íslendingar um að koma fram af ábyrgðarleysi og stjórnast af skammtímahagsmunum.
„Það er athyglisvert að þetta er talsmaður frá Evrópusambandinu sem er ekki þekkt fyrir að vera með jafn ábyrga fisveiðistjórnun og Íslendingar. Það er langt til seilst að saka íslensk stjórnvöld um það á umliðnum árum að vera með ábyrgðarlausa fiskveiðistjórnun. Það er ekki fótur fyrir því. Við að sjálfsögðu tökum ákvarðanir þær sem okkur ber og á meðan menn vilja ekki hleypa okkur að ákvörðunum að sameiginlegu borði, Evrópusambandið, Færeyingar og Norðmenn, þá sitjum við ekki hjá og berum einhliða einir ábyrgð á einhverjum sameiginlegum deilistofni. Það verður aldrei þannig,“ segir Kristján Þór.