Forstjóri Bláa lónsins segir stöðu fyrirtækisins góða en arðgreiðslur þess nærri því tvöfaldast á milli ára. Þá jukust skattgreiðslur fyrirtækisins um 56% milli ára en Bláa lónið greiddi um 5 milljarða í skatt á síðasta ári. Þá var ákveðið á aðalfundi í gær að greiða eigendum samtals 4,26 milljarða í arð

„Við erum auðvitað mjög ábyrg í okkar rekstri og höfum alltaf verið, fyrirtækið er 28 ára gamalt og fyrstu 20 árin þá var lítill sem enginn arður greiddur og okkur finnst að nú sé komið að hluthöfunum að njóta ávaxtanna af því góða starfi sem hér hefur verið unnið," segir Grímur.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um 45% hlut í Bláa lóninu, Kólfur, félag í eigu Gríms og Eðvarðs Júlíussonar um fjórðungshlut og félag í eigu stjórnenda 11%. Aðrir eiga minna.

60 tonn af kísil á yfir milljón gesti

Gestum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár en í fyrra voru þeir um hálfri milljón fleiri en fjórum árum fyrr. Tæplega 1,3 milljónir gesta heimsóttu lónið árið 2018 og notuðu um 60 tonn af kísil. Starfsemin tvöfaldaðist á síðasta ári, þegar lúxushótel og tveir veitingastaðir voru opnuð. Grímur segir fyrirtækið sjá fram á að það verði fækkun á þessu ári í fjölda. 

„En við höfum verið að vinna lengi að því að auka meðaltekjur af hverjum gesti í stað þess að horfa á fjölda gestanna og það kemur okkur klárlega til góða núna," segir hann.

Fækkun starfsmanna möguleiki

Um 850 manns starfa hjá Bláa lóninu, en mun fækkun ferðamanna hafa áhrif á þann fjölda? „Mér sýnist að það verði kannski einhver aðlögun núna í skammtímanum hvað það varðar en ekkert sem að skiptir málu í stóru myndinni," segir hann.o „Svo mun það bara fara eftir því hvernig ytri aðstæður þróast til hvaða ráða við grípum í því samhengi," segir Grímur.