Guðrún Eva Mínervudóttir, Margrét Tryggvadóttir og Páll Baldvin Baldvinsson eru á meðal höfunda sem tilnefndir eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum í dag. Tilnefnt er í þremur flokkum. Flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki fagurbókmennta.
Guðrún Eva Mínervudóttir, Margrét Tryggvadóttir og Páll Baldvin Baldvinsson eru meðal tilnefndra rithöfunda í ár. Verðlaunin verða veitt um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári. Hér má sjá hvaða bækur eru tilnefndar.
Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965
Útgefandi: Skrudda
Í þessari bók varpar Jón Viðar Jónsson ljósi á merkan kafla í íslenskri leiklistarsögu. Höfundur segir sögu allra helstu leikara tímabilsins, greinir frá sigrum þeirra og ósigrum jafnframt því sem hann gerir valdabaráttunni að tjaldabaki skil.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
Útgefandi: Vaka-Helgafell
Í bókinni segir Ólína Kjerúlf frá gömlum lækningaformúlum, aðferðum og læknisráðum sem sum þykja furðuleg í dag en önnur hafa sannað gildi sitt og tengjast nútíma læknavísindum. Í henni er einnig gerð grein fyrir fjölda íslenskra lækningajurta og sagt frá því hvernig forfeður okkar notuðu þær til að bæta heilsu og græða mein manna.
Páll Baldvin Baldvinsson
Síldarárin 1867-1969
Útgefandi: JPV útgáfa
Páll Baldvin Baldvinsson skráir hér síldarsögu þjóðarinnar. Síldveiðar Íslendinga frá síðari hluta 19. aldar og fram yfir miðja 20. öldina höfðu mikil áhrif á íslenskt samfélag. Í bókinni er þetta merkilega skeið rakið og varpað ljósi á hvernig Ísland umbreyttist úr örsnauðu þróunarlandi í tæknivætt velferðarríki.
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Jakobína – saga skálds og konu
Útgefandi: Mál og menning
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar, veitir hér innsýn í líf og verk móður sinnar. Í bókinni fléttar Sigríður Kristín saman endurminningum, heimildavinnu og skáldskap en Jakobína var alla tíð fáorð um lífshlaup sitt og lét farga bæði bréfum sínum og dagbókum.
Unnur Birna Karlsdóttir
Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi
Útgefandi: Sögufélag
Í Öræfahjörðinni segir Unnur Birna Karlsdóttir sögu hreindýra á Íslandi frá seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra.
Dómnefnd skipuðu:
Árni Sigurðsson, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Knútur Hafsteinsson sem jafnframt var formaður nefndar.
Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:
Arndís Þórarinsdóttir
Nærbuxnanjósnararnir
Útgefandi: Mál og menning
Nærbuxnanjósnararnir er sjálfstætt framhald Nærbuxnaverksmiðjunnar eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Bókin gerist í Brókarenda þar sem lífið snýst um nærbuxur og segir frá ævintýrum Gutta og Ólínu, sem þurfa að grípa til sinna ráða þegar þau sjá að ýmislegt hefur horfið úr nærbuxnaverksmiðju ömmu sinnar.
Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan
Langelstur að eilífu er þriðja bók í seríu um Rögnvald og Eyju sem eru bestu vinir þrátt fyrir að það sé 90 ára aldursmunur á þeim. Rögnvaldur finnur það á sér að það sé farið að styttast í annan endann á vegferð hans. Eyju tekst að sannfæra Rögnvald um að leggja af stað í spennandi ævintýri og lærir um leið að það er oft stutt á milli sorgar og gleði.
Hildur Knútsdóttir
Nornin
Útgefandi: JPV útgáfa
Nornin eftir Hildi Knútsdóttur er framhald Ljónsins sem kom út í fyrra. Bókin gerist í framtíðinni, árið 2096, og fjallar um Ölmu Khan, barnabarn aðalpersónu Ljónsins. Alma er starfsmaður í gróðurhúsi á Hellisheiði þegar henni er óvænt boðið starf í einkagróðurhúsi hinnar heimsfrægu Olgu Ducaróvu. Hana grunar að það tengist eitthvað Kríu ömmu hennar, sem þekkir Olgu eftir alræmdan leiðangur þeirra til Mars.
Lani Yamamoto
Egill spámaður
Útgefandi: Angústúra
Í bókinni segir Lani Yamamoto í máli og myndum frá Agli, sem vill hafa hlutina í föstum skorðum og vill helst ekki tala. Dag einn verður nýja stelpan í bekknum á vegi hans og setur skipulag tilverunnar í uppnám.
Margrét Tryggvadóttir
Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Útgefandi: Iðunn
Í bókinni segir Margrét Tryggvadóttir sögu Jóhannesar S. Kjarvals og varpar ljósi á bæði sérlundaðan mann og einstakan listamann. Fjöldi málverka er í bókinni, auk ljósmynda af fólki og fyrirbærum. Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir er hugsuð fyrir börn og fjölskyldur þeirra til að njóta saman og fræðast um einn mikilvægasta myndlistarmann Íslands.
Dómnefnd skipuðu:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, formaður nefndar, Jórunn Sigurðardóttir og Þórlindur Kjartansson.
Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Svínshöfuð
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Svínshöfuð er fyrsta skáldsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Bókin er fjölskyldusaga sem spannar langan tíma og fjallar um það að lifa af við erfiðar aðstæður. Kínversk mæðgin koma til Íslands um miðjan 10. áratug síðustu aldar og stofna fjölskyldu með aðalsöguhetju, skrýtnum, ofsafengnum, málvana manni sem er kallaður Svínshöfuð. Sagan teygir sig frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar og fram að vorum dögum. Sögusviðið er eyja á Breiðafirði, Stykkishólmur, Kópavogur og Kína.
Bragi Ólafsson
Staða pundsins
Útgefandi: Bjartur
Sögusviðið í Stöðu pundsins eftir Braga Ólafsson er Vesturbær Reykjavíkur árið 1976. Bókin segir frá mæðginunum Möddu og Sigurvin sem ákveða að heimsækja gamlan vin látins fjölskylduföðurins á Englandi. Úr verður saga um móður og son, sem ekki gat hafist fyrr en faðirinn á heimilinu vék úr vegi þeirra.
Guðrún Eva Mínervudóttir
Aðferðir til að lifa af
Útgefandi: Bjartur
Skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Aðferðir til að lifa af, leiðir saman ólíka sögumenn sem eiga það sameiginlegt að glíma við einsemd og harm. Þungamiðja bókarinnar er barn í sálarháska, umkomulaus 11 ára drengur sem býr með fárveikri móður sinni.
Sölvi Björn Sigurðsson
Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur útgáfa
Skáldsagan Selta eftir Sölva Björn Sigurðsson er hvort tveggja í senn óður til íslenskrar nátturu og áningarstaðarins sem við leitum að. Sagan gerist á haustmánuðum 1839 og fjallar um landlækni sem lífgar við dreng sem rekur á land við Hjörleifshöfða. Drengurinn virðist koma frá fjarlægu landi utan Evrópu og fær landlæknirinn það verk að leita uppruna hans.
Steinunn Sigurðardóttir
Dimmumót
Útgefandi: Mál og menning
Í ljóðabókinni Dimmumótum fjallar Steinunn Sigurðardóttir um hamfarahlýnun og ást sína á Vatnajökli. Þetta er óhefðbundinn ljóðabálkur með heimildaívafi, um veröld sem var og veröld sem verður.
Dómnefnd skipuðu:
Bergsteinn Sigurðsson, formaður nefndar, Ragnhildur Richter og Steingrímur Þórðarson