Ný tillaga um viðbyggingu Gamla Garðs við Hringbraut hefur verið lögð fram og borgarráð Reykjavíkur hefur ákveðið að auglýsa nýtt deiliskipulag vegna byggingarinnar. Borgarstjóri segir nýju bygginguna vera sér hjartans mál.

Tillagan er uppfærð útgáfa af tillögu Andrúms arkitekta sem varð í öðru sæti í hönnunarsamkeppni um byggingu stúdentagarða á lóðinni milli Sæmundargötu og Hringbrautar við Gamla Garð.

Gamli Garður var byggður á þriðja áratug síðustu aldar. Þar hafa verið stúdentagarðar mest alla tíð og með viðbyggingunni er hugmyndin að bæta við 70 nýjum stúdentaherbergjum ásamt sameiginlegum eldhúsum, samkomurýmum og geymslum.

Félagsstofnun stúdenta stendur að byggingu fjölda stúdentaíbúða í Vatnsmýrinni. Á reit Vísindagarða rísa 244 íbúðir sem til stendur að opna á næstu misserum.

Ósætti með vinningstillögu

Úrslit hönnunarsamkeppni Félagsstofnunar stúdenta um stúdentabygginguna við Gamla Garð voru kynnt á vordögum ársins 2017. Ydda arkitektar og Dagný Land Design urðu hlutskarpastar í keppninni. En tillagan mætti harðri gagnrýni og þótti skyggja um of á gömlu bygginguna.

Á fundi Háskólaráðs haustið 2017 var ákveðið að staldra við og fara vandlega yfir málið að nýju. Meðal þeirra sem gagnrýndu tillöguna voru Minjastofnun, Húsafriðunarnefnd og Háskólaráð.

Eftir að áformin um byggingarnar frestuðust boðaði Stúdentaráð Háskóla Íslands til setumótmæla á rekstorsgangi í aðalbyggingu Háskóla Íslands í nóvember í fyrra. Kröfur stúdentanna voru að gengið yrði frá deiliskipulagi viðbyggingarinnar og tímalína gerð um framkvæmdirnar. Stúdentarnir kvörtuðu undan húsnæðisvanda, enda eru biðlistar eftir stúdentaíbúðum langir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði á Facebook-síðu sína í byrjun mánaðar um nýtt skipulag. „Eftir nokkrar deilur um skipulag við uppbyggingu stúdentagarða við Gamlagarð er nú komin fram ný tillaga sem verður vonandi sátt um,“ skrifaði Dagur. „Borgarráð samþykkti í gær að auglýsa deiliskipulag vegna hennar og þarf ekki að nefna hversu mikilvæg fjölgun stúdentaíbúða er. Þessi uppbygging er mér metnaðar og hjartans mál.“

Önnur tillaga og hún aðlöguð

Unnið hefur verið að nýrri tillögu um viðbyggingu við Gamla Garð eftir að sú sem vann í hönnunarsamkeppninni þótti ekki passa. Niðurstaðan er sú að tillaga Andrúms arkitekta sem varð í öðru sæti í samkeppninni var valin eftir að gerðar voru breytingar á henni.

Veigamesta breytingin á tillögu Andrúms er að búið er að stytta fremri bygginguna á lóðinni, það er þeirri sem stendur nær Sæmundargötu, frá því að hún var send í hugmyndasamkeppnina. Eftir breytinguna er gamla byggingin Gamli Garður sýnilegri og nýtur sín betur.

Í tillögunni er lagt til að tvær megin byggingar verði tengdar saman á lóðinni með gangi, þar sem inngangur í bygginguna verður frá „skeifu“ Sæmundargötu. Gamla byggingin Gamli Garður tengist við nýbygginguna á ganginum.

Nýbyggingarnar tvær verða sitthvoru megin við Gamla Garð. Stærri bygging verður á milli Setbergs og Gamla Garðs, en hin byggingin – sú sem var minnkuð til þess að mæta gagnrýninni – verður reist á lóðinni austan við Gamla Garð.