Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir tilefni til að huga betur að öryggi í flugi vegna fjölda alvarlegra flugslysa sem orðið hafa í sumar. Frumrannsókn á banaslysinu á Haukadalsflugvelli hefst í vikunni en vettvangsrannsókn lauk á fimmta tímanum í nótt.
Ragnar segir að nú taki við gagnaöflun og frumrannsókn. Flugvélin er eins hreyfils heimasmíði en búið er að flytja flakið til Reykjavíkur þar sem það verður skoðað betur. „Rannsóknin gengur vel. Það er náttúrulega skammur tími enn frá því að slysið átti sér stað en miðað við tímann gengur rannsóknin mjög vel,“ segir hann.
Á fimmtudaginn hlekktist annarri eins hreyfils flugvél á í lendingu á þessum sama flugvelli. Ragnar segir þó að ekkert bendi til þess að aðstæður á Haukadalsflugvelli þarfnist úrbóta. Óháð þessu slysi sérstaklega segir Ragnar tilefni til þess að skoða öryggismál betur.
„Það er náttúrulega ekki hægt að líta fram hjá því að við höfum verið með óvenju mikið af alvarlegum flugatvikum og flugslysum núna í sumar og það er kannski allt í lagi að við sem erum í fluginu tökum eitt skref til baka og hugum aðeins betur að öryggi. Ég nota tækifærið og bendi á að það eru haldnir reglulegir flugöryggisfundir af Samgöngustofu og Flugmálafélaginu sem rannsóknarnefndin hefur líka tekið þátt í,“ segir Ragnar.