Fjöldi íbúa Feneyja vill banna siglingar skemmtiferðaskipa nærri borginni vegna mengunar og slysahættu. Boðað var til mótmæla í dag vegna málsins og talið er að meira en þrjú þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. Ítölsk yfirvöld boða aðgerðir fyrir mánaðamót til að fækka slysum.

Kveikjan að mótmælunum er slys sem varð um síðustu helgi þegar skipstjóri skemmtiferðaskipsins MSC Opera náði ekki að stöðva það vegna vélarbilunar og það sigldi á annan bát og bryggjuna.

Nokkrir slösuðust og áreksturinn vakti að nýju óánægjuraddir þeirra sem vilja ekki sjá skemmtiferðaskip nærri eyjunni Giudecca, þar sem minnst er um ferðamenn en Feneyjar eru einn af allra vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna í Evrópu.  

Mótmælendur kröfðust þess að umferð skemmtiferðaskipa um lón og skurði borgarinnar vegna sjón- og umhverfismengunar. Þeir segja einnig öldur sem fylgja skipunum skemma undirstöður borgarinnar.

Fyrir tveimur árum hétu stjórnvöld á Ítalíu því að stórum skemmtiferðaskipum yrði meinað að sigla í skipaskurðum nærri borginni. Illa hefur gengið að framfylgja banninu en samgönguráðherra Ítalíu boðaði í dag aðgerðir fyrir mánaðamót, sem íbúar hafa litla trú á.