Þúsundir hafa mótmælt því að foreldrar og barn þeirra verði send til Pakistan eftir helgi. Foreldrarnir óskuðu alþjóðlegrar verndar hérlendis því þeir óttuðustu um líf sitt eftir að hafa gengið í hjónaband gegn vilja fjölskyldu konunnar.

Faisal og Niha Khan óskuðu alþjóðlegrar verndar á Íslandi fyrir sig og son sinn síðla árs 2017. Þau sögðust óttast um líf sitt ef þau yrðu að fara til Pakistan, þaðan sem þau eru upphaflega. Þau giftust þrátt fyrir að fjölskylda konunnar hefði samið um brúðkaup hennar og annars manns, frænda hennar. Beiðni þeirra hefur verið synjað og til stendur að flytja þau úr landi á mánudag. 

„Við finnum ekki fyrir neinu, við erum dofin,“ segir Faisal Khan. Hann segir þau hjón hafa verið farin að óttast um sig í Oman og því aflað sér upplýsinga um hvar þau gætu lifað öruggu lífi. Í framhaldinu ákváðu þau að koma til Íslands. Þau urðu ástfangin og giftust í andstöðu við fjölskylduhefðir sem kváðu á um hjónaband sem foreldrar ákváðu. 

Talar íslensku betur en íslenskir jafnaldrar

Valur Grettisson kynntist fjölskyldunni eftir að sonur Vals og Muhammed, sonur Faisals og Niha, kynntust í leikskóla. „Við tókum náttúrulega eftir því strax þegar við kynntumst Muhammed að hann var einstaklega skýr, hann var mjög klár. Hann var þá þegar búinn að læra tungumálið til fulls, talaði tungumálið skýrar en okkar eigin sonur. Átti ótrúlega auðvelt með að læra, tjá sig og annað eins,“ segir Valur. 

Muhammed heldur upp á sjö ára afmælið sitt í dag, tveimur dögum fyrir brottvísun. Á fjórða þúsund manns hafa undirritað áskorun á netinu um að stjórnvöld virði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hætti við brottvísun drengsins og fjölskyldu hans.

„Þessi hjón eru mjög vel menntuð. Þau er klár, þau eru víðmenntuð,“ segir Valur. „Þau hafa búið í Oman. Faðirinn, Faisal, bjó í Tókýó og New York þegar hann var yngri, lærði meðal annars í New York. Tómarúmið er þannig í biðstöðunni að þau eru að verða mjög vondauf, mjög sorgmædd og þeim finnst alveg skelfilegt að þau þurfi að fara aftur til Pakistan.“

Vill frekar fara til Oman

Faisal Khan segist hafa óskað eftir því við lögreglu að þau yrðu endursend til Oman þar sem þau bjuggu fyrir förina til Íslands frekar en til Pakistan. Því hafi verið synjað.

„Ég vil halda í vonina. Ef ég gef upp vonina er öllu lokið,“ segir Faisal, aðspurður hvort hann beri enn von í brjósti um að ekki verði af brottvísun.

Samkvæmt upplýsingum á vef Útlendingastofnunar sóttu 867 um alþjóðlega vernd á Íslandi á síðasta ári. Það ár voru 1.123 mál afgreidd, sum frá því í fyrra og önnur eldri. Af þeim fengu 376 vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. 251 var synjað. 496 voru endursend samkvæmt heimildum Dyflingarsamningsins, vegna verndar í öðru ríki eða af öðrum ástæðum.