Rýma þurfti til á gjörgæsludeild Landspítalans í gær eftir rútuslys í Öræfum þar sem þrjátíu og þrír slösuðust, þar af fjórir alvarlega. Gult viðbúnaðarstig var virkjað á spítalanum vegna slyssins. Tíu sjúklingar voru fluttir á milli deilda eða á nærliggjandi sjúkrahús og einhverja þurfti að útskrifa fyrr af spítalanum.

Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Hann segir sérstaka áskorun að rýma spítalann nú vegna verulegs álags á gjörgæsludeild. Þrátt fyrir það hafi allt gengið vel því spítalinn hafi öðlast ákveðna þjálfun í að takast á við hópslys af þessu tagi og á þessu landshorni.

„Þegar svona gerist þá sést að þarna eru yfir þrjátíu manns, og við höfum nú reynslu af mjög alvarlegum rútuslysum áður, og þá þurfum við að rýma á Landspítalanum. Það er sérstök áskorun vegna þess hversu fullur spítalinn er. Það er búið að vera mjög mikið álag undanfarna daga og vikur reyndar en það gekk mjög vel. Það er bara gengið í það mál og nágrannasjúkrahúsin unnu mjög vel með okkur og auðvitað sjúklingar og aðstandendur sem þurftu að bregðast skjótt við og vera tilbúnir og sveigjanlegir að þola flutninga.“

Farþegar í rútunni sem valt voru kínverskir ferðamenn. Álag á spítalanum hefur aukist verulega vegna fjölgun ferðamanna. 

„Íslendingum hefur fjölgað um 40 þúsund sem er alveg nóg en ferðamönnum hefur fjölgað um meira en tvær milljónir á sama tíma og það er gríðarlegt álag vegna þess, sérstaklega í slysum. Okkur skortir gjörgæslurými og enn frekar gjörgæslustarfsfólk til að halda rýmum opnum.“

Tæp tuttugu og fimm prósent rýma á gjörgæsludeild eru setin af ferðamönnum á hverjum tíma, að sögn Páls. Sautján prósent legurýma á síðasta ári voru erlendir ferðamenn sem lent höfðu í slysum. Þrátt fyrir það hafi fólksfjölgun og fjölda ferðamanna ekki verið mætt með auknum fjárframlögum til spítalans. 

„En það hefur verið ákveðið átak i gangi að kynna betur fyrir ferðamönnum hættur á íslenskum þjóðvegum því slysin gerast mest í akstri og það hefur nú skilað töluverðum árangri sýnist okkur.“ 

„Við erum rétt nú að komast á þann stað að fjárveitingum sem við vorum á 2008 á föstu verðlagi en á sama tíma hefur verkefnum fjölgað mjög bæði vegna líffræðilegrar þróunar, vegna ferðamanna og vegna þess að það er alltaf að bætast við tæknina. Verið er að gera hluti betur, lækna meira og betur en áður og það kostar töluvert fé, “ bætir Páll við.