Þorleifi Erni Arnarssyni hefur tekist að hrista upp í þýsku leikhúsi síðan hann tók við yfirmannsstöðu við Volksbühne leikhúsið í Berlín en hann segir hlutverk listarinnar meðal annars vera að spyrja óþægilegra spurninga. „Ég hef aldrei sett upp sýningu sem hefur verið einróma lofuð eða einróma slátrað,“ segir hann.

Þorleifur Örn Arnarsson býr í Berlín og gegnir hann stöðu yfirmanns leikhúsmála við Volksbühne-leikhúsið þar í borg. Hann á ekki langt að sækja leikhúsbakteríuna er foreldrar hans eru Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og Arnar Jónsson leikari. Þorleifur var föstudagsgestur í Mannlega þættinum og sagði Gunnari Hanssyni frá ferlinum, uppvextinum og leikhúsuppeldinu. 

Leikarinn kjarni leikhússins

Þorleifur Örn er menntaður leikari en segir að sér hafi orðið það ljóst strax á öðru ári í leiklistarnáminu að hann ætti ekki heima á sviðinu. „Ég gat ekki losað mig undan því að horfa á formið í kringum mig og spegla og tókst ekki að aðskilja sýn mína utan frá á það sem ég var að gera á sviðinu,“ segir hann og bætir við að sá hugsunarháttur sé ekki góður staður fyrir leikara. „Það grefur bæði undan hæfileikum og öryggi því þú ert ekki í andartakinu heldur að þykjast vera það.“ Stefnuna tók hann því fljótt í leikstjórn en hann segir að námið hafi þó nýst honum mjög vel í því sem hann gerir í dag. „Ég hef djúpa innsýn inn í vinnu leikarans en hann er eftir sem áður kjarni leikhússins.“

Erfitt að starfa í sama umhverfi og foreldrarnir

Í Þýskalandi kynntist Þorleifur snemma áður ókunnum hliðum á leikhúsforminu og nálgun. Þau kynni kynduðu undir áhuga hans á að flytja burt frá Íslandi og lifa og starfa þar í borg. Það eru þó fleiri ástæður fyrir því að hann var ekki hrifinn af hugmyndinni um að starfa í íslensku leikhúsi til lengdar. „Ég fer út ekki síst vegna þess að ég er sonur foreldra minna og það er erfitt að starfa í sama umhverfi og vinna sig úr þeim skugga án þess að vera alltaf að vinna með skugganum. Það var mér því eiginlega alveg lífsnauðsynlegt að komast í umhverfi þar sem ég hafði engar fyrirframgefnar hugmyndir um hver ég væri, hvað ég gæti og hvaða skoðanir ég hefði,“ segir hann. Honum hafi oft ekki fundist hann ná að tjá skoðanir sínar því þær væru alltaf settar í samhengi við skoðanir, feril, orð og gjörðir foreldra hans. 

Listin sem þyrnir í holdi samfélagsins

Viðtökurnar sem Þorleifur hefur hlotið í Berlín hafa verið misjafnar en allir hafa skýra skoðun á því sem hann gerir, og þannig vill hann hafa það. Það blundar í honum broddfluga sem nýtur sín sérstaklega vel í Berlín þar sem umræðan er lifandi og gróskan í leikhúslífinu mikil. „Ég hef aldrei sett upp sýningu sem hefur verið einróma lofuð eða einróma slátrað,“ segir hann „Það er nauðsynlegt að fyrir listamenn að gangast ekki innundir kerfið um of því kerfi sem ekki speglar og spyr erfiðra spurninga fúnar, eins og vatnsglas sem hefur staðið of lengi verður staðið.“

Þannig sé hlutverk listarinnar að spyrja gagnrýnna spurninga og halda samfélaginu á tánum. „Ekki alltaf til að móðga og móralísera heldur til að ýta við því og vera þyrnir í holdi samfélagsins. Maður hefur stundum á tilfinningunni að við séum að sigla sofandi að feigðarósi, til dæmis í loftslagsmálum. Þannig er hlutverk listarinnar að halda okkur vakandi.“

Rætt var við Þorleif Örn Arnarsson í Mannlega þættinum.