Lögreglan þurfti að bjarga Gretu Thunberg frá ásókn fjölmiðla þegar hún kom á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag. Thunberg tók þátt í loftslagsmótmælum ungmenna í Madríd.
Greta Thunberg átti nánast fótunum sínum fjör að launa vegna ásóknar fjölmiðla og annarra þegar hún kom til Madrídar. Henni var fylgt um hvert fótmál þar sem hún slóst í hópinn með öðrum ungmennum sem að hennar fordæmi blésu til loftlagsmótmæla í borginni í dag. „Nú höfum við farið í verkfall í rúmt ár og enn hefur í raun ekkert gert. Ég vona innilega að þessi ráðstefna hafi einhver raunveruleg áhrif og auki einnig meðvitund fólks almennt,“ sagði Greta Thunberg í Madríd í dag.
Ekki eru allir á einu máli um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Patricia Espinosa, forstjóri loftslagsmála Sameinuðu þjóðanna minnti á mikilvægi þess að taka mark á vísindum. „Í þessum hafsjó ólíkra radda verða vísindin að vera sameiginlegt tunumál okkar. Það sem vísindin segja okkur er afar skýrt. Við stöndum nú frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum og margir vendipunktar eru framundan. Við verðum að bregðast við undir eins,“ segir Espinosa.
Stefna á að klára regluverkið
Ráðstefnan er haldin árlega. Í fyrra var hún í Póllandi og Katowic-samþykktin þótti marka tímamót. Hún fól í sér nánast fullbúið regluverk og leiðarvísi um hvernig skuli vinna að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Í ár er stefnt að því að klára regluverkið, sér í lagi sjöttu grein þess sem snýr að viðskiptakerfi sem gerir þjóðum sem standa sig vel í að draga úr losun kleift að selja öðrum ríkjum losunarkvóta. Fundurinn stendur til 13. desember. Í næstu viku er svokölluð ráðherravika, þá fer Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra utan ásamt fjórum þingmönnum. Þau eru Guðmundur Andri Thorsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Á. Andersen