Forstjóri Landspítalans segir að út frá skýrslu OECD megi áætla álykta að veita þurfi meira fé í heilbrigðisþjónustu eins og kallað hefur verið eftir. Landspítali þurfi að fækka starfsfólki enn frekar á næsta ári.

Framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu eru undir meðaltali OECD-ríkja samkvæmt nýrri skýrslu. Á sama tíma hefur Landspítalinn þurft að fækka starfsfólki, lækka laun og grípa til annarra aðhaldsaðgerða. 

„Við erum að forðast beinar uppsagnir. Við erum að nota starfsmannaveltu. Endurráða ekki í tímabundin störf,“ segir Páll Matthíasson.

Ekki er enn komið á hreint hvað starfsfólki fækkar mikið.  Páll segir að það sé stjórnenda að útfæra það. Þarf að fækka starfsfólki enn frekar á næsta ári? „Já, það má gera ráð fyrir því. Þær aðgerðir sem við gripum til á þessu ári koma meira til kastanna á árinu 2020. Það sem var tæplega milljarður í hagræðingu á þessu ári verða þá á ársgrundvelli tæpir þrír.“

„Það er stíf hagræðingakrafa á stoðþjónustu, rekstrarþjónustu og fjármál og annað slíkt og þar mun þessa gæta meira. Það mun auðvitað hafa áhrif á þá þjónustu sem við veitum en við viljum samt vernda kjarna klíníska þjónustu.“

Samkvæmt úttektinni ver Ísland 8,3 prósentum af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Sem er lægra en 21 ríki OECD, þar með talin öll önnur Norðurlönd. „Í rauninni er gagnlegra að horfa á hversu mikið fé fer í hvern einstakling á landinu. Þar sjáum við að við erum fyrir ofan Finnland en við erum lægri en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Út frá því má leiða líkur að því að við þurfum að setja meira í heilbrigðisþjónustuna sem við höfum auðvitað kallað eftir líka.“