Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að í vor voru samþykkt ný lög á Alþingi um þungunarrof, þar sem rétturinn til að taka ákvörðun um að rjúfa þungun var færður frá heilbrigðisstarfsfólki í hendur kvennanna sjálfra.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar á Alþingi varð mikið fjaðrafok í samfélaginu, mikill hiti var í fólki og þung orð voru látin falla í hita leiksins. Enda engin furða, þessi einfalda læknisfræðilega aðgerð, að rjúfa þungun, er nefnilega ekki léttvæg. Hún tekur á alvarlegum spurningum um sjálfsákvörðunarréttinn og tilveruréttinn sjálfan.

Þrátt fyrir að þungunarrof kveiki heitar tilfinningar og erfiðar spurningar í hugum fólks og daglegu tali, er afar sjaldan rætt um þungunarrof í daglegu tali og heyrir til undantekninga að konur deili reynslu sinni af því að hafa látið rjúfa þungun. Það ríkir enn mikil skömm yfir þungunarrofi og konur þegja almennt yfir reynslu sinni en ýmislegt bendir til að þessi þögn sé að rofna.

Árið 2015 kom út bókin Rof eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur, þar sem birtar voru frásagnir kvenna af þungunarrofi. Sumarið áður höfðu höfundar kallað eftir sögum kvenna af þungunarrofi og voru viðbrögðin sterk. Rúmlega hundrað konur höfðu samband og nærri áttatíu sögðu að lokum sögu sína, sem gefnar voru út í bókinni. Þagnarmúrinn var loksins rofinn.

Svo virðist sem sú þöggun sem almennt ríkir um þungunarrof í samfélaginu sé endurspegluð í bókmenntasögunni, og fá skáldverk segja frá konum sem fara í þungunarrof. Rætt er um það í sumum af fyrstu skáldsögunum sem skrifaðar voru á Vesturlöndum, á átjándu öldinni. Samuel Richardson minnist á þungunarrof í skáldsögu sinni, Clarissa, sem kom út 1748. Í skáldsögunni er sagt frá Sally Martin, fagurri stúlku af millistétt sem dreymir um að giftast aðalsmanni. Hún hittir flagarann Lovelace sem tælir hana, rænir henni úr foreldrahúsum og selur í hórdóm. Þar verður hún þunguð og lætur binda enda á meðgöngu, sem sögumaður telur vera glæp sem beri vott um að Sally eigi skilið sorgleg örlög sín.

Það þurfti konu til að skrifa um þungunarrof fyrir djúpstæðari lýsingu á því hvað drífur konur til að rjúfa þungun. Í skáldsögunni Maria; or the Wrongs of a Woman, sem kom út 1798, segir Mary Wollstonecraft frá Jemimu, ungri stúlku af lágum stéttum. Þegar Jemima er sextán ára nauðgar húsbóndinn henni og hún verður þunguð. Hann útvegar Jemimu lyf til að binda enda á meðgöngu en hún neitar að rjúfa þungunina. Það er ekki fyrr en henni hefur verið kastað á götuna fyrir þá synd að ganga með barn utan hjónabands að hún tekur lyfið í örvæntingu sinni. Það er sem sagt ekki siðferðisbrestur sem veldur því að Jemima rýfur þungun heldur félagslegar aðstæður og það er ákvörðunin um að gera það sem leggur grundvöllinn að framtíð hennar. Jemima fær stöðu sem ráðskona í sveitinni, starf sem hún hefði ekki fengið sem einstæð móðir.

Halldór Laxness greindi frá þungunarrofi í skáldsögu sinni Atómstöðinni sem kom út 1948 og lýsir lífinu í Reykjavík á hernámsárunum. Sagan segir frá Uglu, ungri sveitastúlku sem ræður sig í vist hjá Búa Árland alþingismanni. Dóttir Búa, Guðný Aldinblóð, verður þunguð í skáldsögunni. Hún trúir Uglu fyrir leyndarmálinu en þorir ekki að segja föður sínum frá. Búi kemst þó að því að dóttir hans er þunguð og fer með hana til kunningja síns, læknis, þar sem hún undirgengst þungunarrof. Eftir aðgerðina liggur Guðný náföl á bekk og segir Uglu að hún muni heyra „súngið móðir mín í kvíkví þegar ég er orðin stór“, og vísar þar í íslensku þjóðsöguna um draug barns sem borið var út og ásækir móður sína.

Fæstar konur á fyrstu áratugum tuttugustu aldar voru í þeirri aðstöðu að geta rofið þungun á öruggan máta, undir læknishendi. Ýmsum ráðum var beitt til að rjúfa þungun heima fyrir. Einni slíkri aðgerð er lýst í skáldsögu Ragnheiðar Jónsdóttur, Mín liljan fríð, sem kom út 1961 og Dagný Kristjánsdóttir hefur lýst sem listrænum hápunkti á ferli Ragnheiðar. Sagan gerist um aldamótin 1900 í sjávarþorpi á Suðurlandi og segir frá fátækri fjölskyldu. Faðirinn er veikur og óvinnufær og móðirin, Sæunn, gengur í þá vinnu sem er að fá í þorpinu. Lilja er elsta dóttirin, fimmtán ára, með hryggskekkju, kölluð „Lilja kripp“ af börnunum í þorpinu. Rósa systir hennar er tólf ára, og yngsta barnið er hinn þriggja ára Mundi, sem með þroskaskerðingu. Þegar Sæunn snýr aftur heim í bæinn eftir að hafa jarðað eiginmann sinn, bindur hún enda á þungun sína og fær elstu dótturina til að grafa gröf í suðvestur-kálgarðshornið.

Þegar skáldsaga Ragnheiðar gerist, árið 1900, var harðbannað að rjúfa þungun, að viðlagðri allt að átta ára hegningarvinnu. Það virðist þó sem frjálslyndi hafi ríkt á landinu um þungunarrof og að aðgerðin hafi verið framkvæmd bæði í heimahúsum og á spítölum landsins, eins og kemur fram í heilbrigðisskýrslum. Þegar fyrstu lög um þungunarrof voru sett á landinu árið 1935, var loksins heimilt að rjúfa þungun af læknisfræðilegum og félagslegum ástæðum, og voru þessi lög eftir því sem næst verður komist þau fyrstu í heiminum sem heimila þungunarrof á grundvelli félagslegra aðstæðna. Einungis var heimilt að rjúfa þungun ef skrifleg greinargerð tveggja lækna um nauðsyn aðgerðarinnar lá fyrir.

Á sjöunda áratugnum hófu konur að berjast fyrir rýmra aðgengi að þungunarrofi, og má þá sérstaklega nefna Rauðsokkahreyfinguna sem barðist fyrir því að ákvörðun um þungunarrof væri í höndum kvenna, ekki lækna. Barátta Rauðsokka leiddi af sér að frumvarp var lagt fyrir Alþingi um frjálsar fóstureyðingar, þar sem konur sjálfar máttu taka ákvarðanir um að rjúfa þungun án þess að þurfa leyfi lækna. Það frumvarp mætti mikilli andstöðu á Alþingi og nefnd þriggja karla var skipuð sem samdi nýtt frumvarp þar sem haldið var í þann hátt að konur þyrftu leyfi tveggja fagaðila til að láta rjúfa þungun.

Það var ekki fyrr en vorið 2019 sem Alþingi samþykkti loksins breytingu á löggjöf um þungunarrof sem færði ákvörðunarréttinn úr höndum heilbrigðisstarfsmanna og setti það í hendur kvenna. Á þeim fjörutíu og fjórum árum sem liðu á milli þessara tveggja lagasetninga hafa íslenskir rithöfundar ekki mikið velt fyrir sér þungunarrofi í skáldskap sínum.

Nokkur eru þó verkin sem taka á þungunarrofi. Fyrsta skáldsaga Nínu Bjarkar Árnadóttur Móðir, kona, meyja, sem kom út 1987, hefst á þungunarrofi. Þar bindur hin sextán ára Helga enda á þungun sína, ein uppi á heiði. Í skáldsögu Nínu Bjarkar er það konan sem er sögumaður en í skáldsögunni Ástfóstur eftir Rúnar Helga Vignisson, sem kom út 1997, er sögumaður fóstrið sjálft sem hefur verið eytt. Hið horfna fóstur segir frá lífshlaupi móður síns. Tilfinningar konu sem íhugar þungunarrof eru eru efniviður einleiksins Þrjár Maríur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sem sett var á svið 2004 og birtist á prenti 2006. Sögumaður einleiksins er Maja sem er þunguð eftir ástmann sem giftur er annarri konu. Maja stendur frammi fyrir að ákveða hvort hún skuli ganga með barnið. Þungunarrof er svo skammarlegt leyndarmál sem hvílir á fjölskyldu í nýjustu skáldsögu Þórdísar Gísladóttur, Horfið ekki í ljósið, sem kom út 2018. Þungunarrof hefur verið beinagrindin í skápum kvenna um aldanna skeið.

Konur hafa sjaldnast verið frjálsar, afar fáar búa við kynfrelsi. Þær hafa aðeins á allra síðustu árum, og í alltof fáum þjóðríkjum haft sjálfsákvörðunarrétt um eigin líkama, haft þann rétt til að taka ákvarðanir um hvort þær vilji ganga með barn eða binda enda á meðgöngu. Nú síðustu árin hafa konur verið að draga þessar beinagrindur fram úr skápnum, hver á fætur annarri, að segja sögur sínar, sumar nafnlausar og aðrar undir nafni. Það eru þessar reynslusögur kvenna sem loksins urðu til þess að sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama var staðfestur á Alþingi árið 2019, með nýjum lögum um þungunarrof.

En skáldin okkar hafa ekki enn tekið sama skref. Þöggun ríkir enn um þungunarrof í íslenskum skáldskap. Fáir rithöfundar hafa sagt frá þessari reynslu kvenna í verkum sínum.

Sagt var frá þungunarrofi í bókmenntasögunni í þættinum Orð um bækur, á dagskrá 18. maí 2019. Þáttarstjórnandi var Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og lesari með henni var Jóhannes Ólafsson.