Bókarýnir Víðsjár segir að sjálfsævisöguleg nálgun Tilfinningabyltingarinnar eftir Auði Jónsdóttur sníði verkinu of þröngan stakk, til að særa ekki hlutaðeigandi eða stuða of mikið. Það leiði til þess að eyður séu í frásögninni og hún ekki nógu hreinskilin.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Hjónabandið hefur löngum verið sú höfn sem frásagnir af ólíku tagi stefna í, allt frá skáldverkum Jane Austen til sjónvarpsþáttaraðarinnar Sex and the City. Þegar þeim áfanga er náð er oftast kominn tími til að segja skilið við sögupersónurnar. Þá hefur ástarsagan sem slík verið svo ríkjandi hluti af sögufléttum samtímans að það heyrir eiginlega til undantekninga að hún sé með öllu fjarverandi, og skiptir þá litlu hvaða grein viðkomandi verk tilheyrir eða hvert meginviðfangsefnið er. Það að fólk pari sig saman er sígildur og ómissandi hluti af farsælum endalokum. Bandaríski heimspekingurinn Stanley Cavell skrifaði meira að segja heila bók um sérstaka undirgrein klassískra Hollywood-kvikmynda sem hann kenndi við „hjónaskilnaðarslitagamanmyndina“, eða „the comedy of remarriage“, sem snerist um fráskildar aðalpersónurnar sem sjá að sér og verða ástfangnar á nýjan leik, og er skemmtilegt dæmi um grettistak hjónabandsins á mannlífinu. Verk sem fjalla um hina hliðina á þessu öllu saman, þrot ástarinnar og skipbrot langs sambands, þá tilfinningalegu og áþreifanlegu ringulreið sem felst í því að segja skilið við manneskju sem um langt skeið hefur staðið manni nær en nokkur annar, eru heldur sjaldgæfari þótt þær eigi sér auðvitað líka langa sögu. En þar komum við að Tilfinningabyltingunni, nýjustu skáldsögu Auðar Jónsdóttur, sem fjallar einmitt um aðdraganda skilnaðar, raungervingu hans og eftirköst.
Reyndar er dálítið flókið að fjalla um verkið sem skáldsögu, ekki endilega vegna þess að Auður hefur verið opinská um að hér sé sjálfsævisögulegt verk á ferðinni, því það er svo sem ekkert nýtt fyrir höfundinn, heldur vegna þess að ólíkt fyrri verkum Auðar verður ákveðinn árekstur milli sjálfsævisögulegrar víddar skáldsögunnar og svo skáldlegrar og frásagnarlegrar tjáningar atburðarásarinnar, frelsi skáldskaparins virðist að nokkru leyti vera heft í Tilfinningabyltingunni og verkinu á köflum þröngt sniðinn stakkur svo að viðkvæmt viðfangsefnið særi ekki hlutaðeigandi eða stuði of mikið, og það leiðir til þess að eyður og skallar eru í frásögninni og hún stundum óljós og óskýr, feimnisleg og ekki alveg hreinskilin. Sem er vandamál hvort heldur sem skáldsaga á í hlut eða sjálfsævisöguleg frásögn.
Nafnleysið þvælist fyrir
Frásögninni er miðlað í þriðju persónu og til vitundarmiðjunnar, konunnar, er jafnan vísað sem „hennar“, meðan maðurinn hennar er ýmist „hann“ eða „maðurinn“. Þetta er ekki róttækt stílbragð og þess vegna kemur á óvart að það skuli ekki virka sem skyldi út í gegnum bókina. Vandamálin helgast að hluta til af því að nær allar persónur bókarinnar eru nafnlausar, að vinkonum aðalsögupersónunnar undanskildum, og lesandi veltir fyrir sér hvort um sjálfsævisögulega kurteisi eða nærgætni af einhverju tagi sé að ræða, en útkoman er sú að þegar lýsa þarf samskiptum nokkurra persóna í einu taka persónufornöfnin að þvælast hvort fyrir öðru, og þar sem stundum er vísað til fleiri en einnar persónu sem „hennar“, verður útkoman furðu klaufaleg. En í grunninn er hér um að ræða hugleiðingu og rannsókn á því hvernig byggja skuli á rústum, og því hvernig rústirnar komu til, hvernig nærri því tveggja áratuga samband fór út um þúfur og hvað taki þá við.
Sagan segir frá pari sem á að baki ævintýrasamt og viðburðaríkt líf saman, þau hafa búið í Kaupmannahöfn, Barselóna, og nú síðast í Berlín, og jafnan hagað lífi sínu eftir eigin höfði og hentisemi. Þau eru bæði listamenn og rithöfundar, frjálsleg í hugsun og andkapítalísk og samkvæmt sögunni njóta þau velgengni, minnst er á hvernig „henni“ er til dæmis boðið með reglulegum hætti til ýmissa höfuðborga Evrópu til að lesa upp eða til að kynna útgáfu á þýðingum á verkum sínum. Næringin í lífi þeirra er menning og listasöfn og sjóndeildarhringurinn er víður, þau kynnast ólíkum menningarheimum og þjóðarbrotum, og svo þegar heim er komið eru þau þátttakendur í listsköpun hvort annars. En eins ljómandi fallega og þetta líf hljómar hefur eitthvað breyst þegar sagan hefst, hún horfir ekki á hann eins og hún gerði einu sinni, það er fjarlægð á milli þeirra sem virðist óyfirstíganleg, og fátt sem þau virðast geta gert eða sagt án þess að valda hinu pirringi og óþoli. Einu sinni fóru þau á flug saman, deildu áhugamálum, atvinnu og ástríðu, núna snýst líf þeirra um tæknilega úrvinnslu hversdagsins.,
Melódramatískt myndmál
Sambandið er búið, það er alveg ljóst, snemma í bókinni eru þau viðstödd brúðkaup og þegar brúðhjónin nýslegnu kyssast djúpt að vígslunni lokinni veltir hún, þ.e.a.s. söguhetjan, fyrir sér hvort hún eigi „einhvern tíma eftir að kyssa aftur á þennan hátt?“ – og er sannfærð um að svo sé ekki. Ástríðan virðist því farin úr hjónabandinu án þess að um það sé fjallað með beinum hætti, ástarlíf hjónanna er eitt af svæðunum sem sagan hættir sér ekki inn á, en það hvað aðalpersónan þráir mikið snertingu og djúpt samneyti við einhvern, kynlíf í rauninni, gefur til kynna að hún sé ófullnægð og þar hafi eina brotalömina í sambandinu verið að finna. Og skilnaðurinn gengur í gegn og aðalpersónan stendur uppi einstæð móðir í Reykjavík, fjarri því fjárhagslega örugg og með kvíðavekjandi dómsmál vofandi yfir sér, eða eins og segir á einum stað:
„Einn daginn vaknar fjörutíu og fjögra ára kona upp í nýju lífi sem henni finnst hafa skollið á sér eins og alda, feykt henni á bólakaf svo hún hentist stjórnlaust áfram og rak á fjöru í einskismannslandinu þar sem hundar þefa af blóðugum jarðvegi og fólk var skotið til bana fyrir að reyna að hlaupa yfir í frelsið. Strönduð þar. Veit ekki hvernig hún lenti þar.“
Kannski réttlætir Berlínardvölin þetta skáldlega stökk yfir í einskismannslandsmyndlíkinguna þar sem fólk var skotið til bana, en sumum kann þó að þykja nokkuð djúpt tekið í árinni, en það er svo sem víða í textanum sem skilnaðurinn er klæddur í táknbúning lífsháska, „hjartað springur“ og „sprengjuflísar“ dælast „inn í blóðrásina“, henni líður eins og hún sé „hrapandi í brennandi flugvél“ og þar fram eftir götunum. Í ljósi þess hversu venjubundið ferli er fjallað um, hjónaskilnaðir eru jú ekki svo sjaldgæfir í nútímasamfélagi, og það að lífi aðalpersónunnar vindur fram í hálfgerðu móki og doða eftir skilnaðinn, stingur melódramatískt myndmálið stundum í stúf.
Sumt er ágætlega fjallað um, til dæmis hversu þungbært það er að þurfa að bera skömm foreldra sinna inn í sér fram á fullorðinsár og tilfinningaflækjurnar sem felast í því að syrgja í senn ástina sem eitt sinn var og framtíðina sem átti að verða, hjónabandið átti jú að vara að eilífu. Hins vegar eru stílbrögð höfundar ósamstæð og stundum klisjukennd og hugleiðingarnar um lífið og tilveruna endurtekningarsamar og ekkert sérstaklega frjóar. Það er ekki laust við að manni hafi verið hugsað til sjónvarpsþáttaraðar sem lauk göngu sinni á RÚV síðastliðið sunnudagskvöld, Pabbahelgar, við lestur Tilfinningabyltingarinnar, en þættirnir fjalla einmitt um hliðstætt viðfangsefni og höfundur þeirra, Nanna Kristín Magnúsdóttir, sækir jafnframt í eigin reynslu, þótt það sé á óbeinni hátt – en mögulega er það gjöfulli aðferð. Pabbahelgar einkennast hins vegar af hrárri og húmorískri nálgunarleið á viðfangsefnið og ná að fanga sársauka skilnaðarferlisins sem og hversdagslegu leiðindin sem fylgja, án þess þó að missa sjónar af því hvað lífið getur jafnframt verið absúrd og grátbroslegt í tilfinningaólgunni. Því miður skortir þessa þætti áþreifanlega í Tilfinningabyltingunni.