Sterkara kókaín en nokkru sinni flæðir nú til Íslands í áður óþekktu magni. Þrjú stærstu kókaínmál Íslandssögunnar hafa komið upp á árinu. Þótt risastórar sendingar hafi verið teknar, hækkar verð ekkert, sem bendir til þess að framboðið sé enn nægt.
Stærstu kókaínmál Íslands voru framan af mæld í hundruðum gramma. Árin 1988 og 93 komu upp tvö mál sem bæði hlutu viðurnefnið Stóra kókaínmálið. Það fyrra snerist um smygl á tæpu kílói af kókaíni og það seinna rétt rúmu kílói. Og þessi mettala átti bara eftir að mjakast upp á við næstu ár.
Stærstu fíkniefnamálin hérlendis, Stóra fíkniefnamálið um aldamót, skútumálin tvö 2007 og 2009 og húsbíll sem kom með Norrænu með 90 kílóum af dópi 2015, áttu öll sameiginlegt að í þeim var lítið eða ekkert kókaín.
Það komu eitt eða tvö kíló af kókaíni hér, þrjú þar og árið 2007 var 3,8 kílóum smyglað til landsins í sendibíl frá Cuxhaven í Þýskalandi. Það var nýtt met. Í desember 2017 kom svo íslenskur maður með 4,7 kíló af kókaíni hingað frá Barcelona. Ákæra var gefin út á hendur honum í apríl og þetta var stærsta kókaínmál Íslandssögunnar, þar til í maí.
Mál sem sprengja skalann
Á þessu ári hafa komið upp sjö mál þar sem hálfu kílói eða meira af kókaíni er smyglað til landsins, en það er viðmiðunarmagnið til að smyglið sé skilgreint sem stórfellt.
- Fyrsta málið er jafnframt það langstærsta í Íslandssögunni. Tveir ungir Íslendingar komu frá Frankfurt síðdegis 12. maí með rúm sextán kíló falin í tveimur ferðatöskum. Þeir hafa síðan verið ákærðir ásamt þriðja manni.
- 1. ágúst komu Þjóðverji og Rúmeni á miðjum aldri til landsins með Norrænu með rúm 40 kíló af fíkniefnum falin í fólksbíl. Af þeim voru rétt um fimm kíló kókaín.
- Aðfaranótt 4. ágúst kom Ítalskur karlmaður á miðjum aldri í Leifsstöð frá Madrid með 800 grömm af kókaíni innvortis.
Á tæpum tveimur vikum frá í lok ágúst komu málin svo á færibandi.
- Að kvöldi 29. ágúst komu tvær hollenskar konur um fimmtugt frá Brussel með samtals rúmt kíló innvortis.
- Aðfaranótt 1. september kom hálffertugur Letti frá Madrid með um 670 grömm innvortis og að kvöldi 5. september var 27 ára Íslendingur stöðvaður með rúmt kíló falið í ferðatöskunni sinni við komuna frá Barcelona.
- Næststærsta málið kom svo upp síðdegis 11. september þegar tveir menn, 19 og 30 ára, voru gómaðir í Leifsstöð við komuna frá Þýskalandi með rétt tæpt fimm og hálft kíló í ferðatöskum sínum. Vegna rannsóknarhagsmuna fæst þjóðerni þeirra ekki gefið upp.
Þrjú þessara mála í ár raða sér beint á toppinn yfir stærstu kókaínmál Íslandssögunnar. Þar að auki er þetta allt miklu sterkara kókaín en áður hefur þekkst. Og allt er þetta rakið til íslenskra glæpamanna í Suður-Ameríku.
Lesa í líkamstjáninguna – og ýmislegt fleira
Mörg málanna hefjast í komusalnum í Leifsstöð. Stundum vita yfirvöld af smyglurunum fyrir fram, en Guðrún Sólveig Ríkarðsdóttir, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli, segir að reyndir tollverðir séu líka flinkir að koma auga á það sem bendir til að menn hafi eitthvað misjafnt í pokahorninu.
„Það getur verið alls konar. Það getur líkamstjáning. Það getur verið allt frá ferðalaginu sjálfu. Það getur verið samtal hér á bak við sem kemur upp um ósamræmi við ferðalagið sjálft og annað,“ segir hún.
Sumir játa allt samstundis þegar upp um þá kemst og er jafnvel létt.
„En svo erum við með aðila sem eru mun meira þjálfaðir, eru með sögurnar á hreinu og eru búnir að stilla saman ástæðu fyrir öllu ferðalaginu og þá tekur þetta alltaf aðeins lengri tíma,“ bætir hún við.
Þetta sé sérstaklega algengt með atvinnuburðardýrin, sem smygla mikið innvortis.
„Bæði troðið og gleypt“
„Þarna erum við að sjá bæði troðið og gleypt, ef svo má segja. Það er sorglega mikið um þetta,“ segir Guðrún Sólveig.
Mest hafa menn verið gripnir með þéttpakkaðan meltingarveginn af dópi – yfir eitt kíló af kókaíni innvortis, í rúmlega hundrað pakkningum. Sést þetta ekkert utan á fólki? Líður því ekkert illa?
„Jú jú, auðvitað líður fólki illa. En það nær samt ótrúlega oft að bera sig vel hérna í gegn,“ segir yfirtollvörðurinn.
Flest sé þetta á yfirborðinu venjulegt fólk, sem eigi það fyrst og fremst sameiginlegt að vera komið út í horn.
„Þetta geta verið fíkniefnaskuldir – þetta getur verið fólk í lyfjameðferðum sem eru dýrar,“ segir hún.
Tengist góðærinu
Kókaín er dýrt fíkniefni, kostar um fimmtán þúsund krónur grammið, og verðið hefur ef eitthvað er farið lækkandi undanfarið. Kókaínleifar í frárennslisvatni hafa fjórfaldast á tveimur árum. En hvað skýrir þessi stóru mál, sem sprengja alla skala?
„Við gætum kannski byrjað á að tengja þetta við góðærið í landinu, en við vitum að eftirspurnin er mikil – annars væri ekki allt þetta mikla magn í gangi. Við vitum líka að götuvirðið er ekki búið að vera að hækka þrátt fyrir allar þessar haldlagningar, þannig að það segir okkur líka að það er nóg til á markaðnum,“ segir Guðrún Sólveig Ríkarðsdóttir, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli