Þrjú fyrirtæki sem taka þátt í verkefni Reykjavíkurborgar um ódýrar íbúðir hafa fengið fullgild lóðarvilyrði frá borginni. Oddviti Sósíalistaflokksins segir sláandi að meirihlutinn haldi því fram að búið sé að endurreisa verkamannabústaðakerfið. Alls hefur Reykjavíkurborg samþykkt lóðarvilyrði á níu reitum tengdum verkefninu Ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur, sem sett var af stað árið 2017. Rætt var um stöðuna á verkefninu á fundi borgarráðs fyrir helgi.

Þrír hópar hafa fengið fullgild lóðarvilyrði og skilað inn gögnum um fjármögnun. Frambúð sem þróar byggð í Skerjafirði, Vaxtarhús sem vinnur að verkefni á reit Sjómannaskólans og Urðarsel í Úlfarsárdal. Félagið Heimavellir hefur hins vegar ákveðið að draga sig úr verkefninu en það hafði fengið vilyrði fyrir reit á Veðurstofuhæð. Þá hefur borgarráð samþykkt að veita fimm verkefnum aukinn frest til að tryggja fjármögnun eiginfjár sem er 20 prósent af áætluðum byggingarkostnaði.

Sanna Magdalega Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, segir ekki nógu langt gengið. „Staðan er þannig að borgin þarf að grípa inn í með miklu betri hætti og róttækari hætti og byggja fyrir þá sem eru í neyð. Þetta eru einstaklingar sem hafa það mjög erfitt og þess vegna er mjög sláandi í bókun meirihlutans að það sé talað um að það sé búið að endurreisa verkamannabústaðakerfið og að húsnæðisáætlun þeirra og húsnæðisstefna sé mjög ábyrg og róttæk. Ég get ekki séð það þegar það eru rúmlega átta hundruð einstaklingar á bið eftir félagslegri leiguíbúð,“ segir hún.

Þá segir Sanna það jákvætt að Heimavellir hafi sagt sig frá verkefninu um hagkvæmt húsnæði þar sem fyrirtækið hafi haft neikvæð áhrif á leigumarkaðinn. „Þó það sé kveðið á um að það þurfi að halda íbúðaverði hagkvæmu þá hlýtur það að vera langódýrast ef borgin tæki þetta beint inn á sitt borð og byggi sjálf fyrir þá sem eru í þörf fyrir húsnæði.“