Er Vélar eins og ég eftir Ian McEwan góð skáldsaga? „Nei, að mínu mati er Vélar eins og ég dálítið vond skáldsaga,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi, „en ætti maður að lesa hana? Já, fjandakornið.“
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Framtíðin er ekki björt, myndu sumir segja, sem væru þá kannski að leiða hugann að hlýnun jarðar í bland við útbreiðslu kjarnorkuvopna, uppgang einræðisvelda, aukna misskiptingu auðs, appelsínugulu raunveruleikasjónvarpsstjörnuna í Hvíta húsinu, einokun fárra tæknifyrirtækja á samskiptaháttum veraldar og yfirstandandi en hægfara útför sjálfstæðra fjölmiðla. Framtíðin hefur hins vegar aldrei verið neitt sérstaklega björt í vísindaskáldskap, allavega ekki undanfarin 70 ár. Raunar bjóða fáar bókmenntagreinar upp á jafn skýrt og skínandi afdráttarlaust sýnidæmi um andlát hinnar tækniknúnu framfarahugsjónar á tuttugustu öldinni og vísindaskáldsagan, en nýlegt skáldverk breska rithöfundarins Ians McEwan, Vélar eins og ég, sem birtist fyrir skemmstu í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar, má tvímælalaust telja til þeirrar bókmenntagreinar og gengur einnig heilshugar í lið með niðurtalsverkum greinarinnar. Hér liggur framtíðin að vísu ekki undir heldur fortíðin, en önnur fortíð en sú sem við þekkjum. Árið er 1982 þegar skáldsagan hefst, Falklandseyjastríð Breta gegn Argentínu er um það bil að tapast, og er það langt í frá mikilvægasta misræmið milli þess sögulega veruleika sem við þekkjum og söguheims skáldsögunnar.
Tuttugasta öldin hans Turings
Undir niðri í frásögninni er einn meginaflvaki hinnar breyttu sögulegu framvindu, og það er stærðfræðingurinn Alan Turing, hér svo heimssögulegur persónuleiki – og það er í sjálfu sér ekki fjarri sanni – að saga aldarinnar breytist því örlög hans reynast önnur en þau sem rituð eru í okkar sögubækur. Ef einn aðili hafði sérstaklega mikil áhrif á útkomu síðari heimsstyrjaldarinnar og Stalín og Hitler og aðrir þjóðhöfðingjar eru settir til hliðar, kann það einmitt að hafa verið Turing. Hann gegndi lykilhlutverki við að ráða dulkóðunarlykil Öxulveldanna í sjóhernaði, án þeirra vitundar auðvitað, og hafði þannig gríðarleg áhrif á stríðsrekstur bandamanna síðustu tvö til þrjú ár stríðsins. Og svo fann hann líka upp tölvuna. Og hugmyndina um algóritma. Og lagði línurnar fyrir þróun gervigreindar. Fleira mætti tína til, en Turing var samkynhneigður og í stað þess að vera hylltur af þjóð sinni var hann sóttur til saka fyrir kynvillu örfáum árum eftir stríðslok, sakfelldur, og geltur af breska ríkinu. Tveimur árum síðar, þá 41 árs, tók hann eigið líf. Í söguheimi McEwans er þessu öllu allt öðru vísi farið. Turing er goðsögn, dáður víða um lönd og drifkraftur tækniþróunar sem tekur okkar samtíma fram. Internetið og snjallsímar eru gamlar fréttir árið 1982, en nýbúið er að markaðsvæða niðurstöður rannsókna Turings á gervigreind, og fyrstu vélmennin sem yfir henni búa eru komin í búðirnar.
Vélar eins og ég er fyrsta vísindaskáldsaga McEwans, en eins og margir vita eflaust, var hann staddur hér á landi fyrir ekki löngu, til að taka við fyrstu alþjóðlegu bókmenntaverðlaununum sem kennd eru við Halldór Laxness. Verðlaunin fékk hann fyrir höfundarverkið og eru ekki þau fyrstu, raunar er eiginlega hvorki pláss í hnappagatinu hjá McEwan fyrir fleiri rósir né í hattinum fyrir fjaðrir, svo margverðlaunaður og heiðraður er hann. Raunar hefur mér lengi fundist eitt það allra forvitnilegasta við feril McEwans vera hvernig „Svartagalls-Ian“, eins og hann var snemma uppnefndur í breskum fjölmiðlum með tilvísun til umdeildra og myrkra yrkisefna, varð að einum miðlægasta og virtasta meginstraumshöfundi breskra samtímabókmennta, jafnvel eins konar þjóðskáldi. Sum fyrri verka McEwans fela í sér kaldranalegar lýsingar á ofbeldi sem jafnframt eru vafðar inn í orðræðu sem rökvæðir stjórnleysi, kvenhatur og sjálfseyðingu, og ramba gjarnan á barmi hins fantasíska og hreinnar sturlunar. Í seinni tíð hefur þetta breyst, yrkisefnin og efnistökin eru önnur, og hefur breytingin haldist í hendur við velgengni höfundarins. Framsetning á siðferðilegum vandamálum og tilraunir til að takast á við samfélagsmál í víðara samhengi hafa verið í forgrunni hjá þjóðskáldinu McEwan og Vélar eins og ég er þar engin undantekning.
Yfirtaka hins melódramatíska ímyndunarafls
Siðferðislegu vandamálin sem McEwan glímir við hér eru keimlík þeim sem standa fyrir miðju kvikmyndarinnar Blade Runner frá 1982, sem Ridley Scott leikstýrði, og skáldsögunni sem hún byggðist á, Dreymir vélmenni um rafvæddar kindur frá 1968 eftir Philip K. Dick. Hver er siðferðisleg ábyrgð okkar mannanna andspænis sköpunarverkum okkar, sem gædd eru vitund, greind og tilfinningalífi, skyldi okkur takast að búa þau til? Hvaða áhrif hefur það á okkur að vera ekki lengur eina vitsmunalega lífveran í veröldinni? Eða einu sinni sú greindasta? Annars vegar er um frásagnarmótíf að ræða sem rekja má aftur til 1818 og skáldsögunnar Frankenstein eftir Mary Shelly. Hins vegar vandamál sem er raunverulegt og vísindamenn um víða veröld standa frammi fyrir um þessar mundir, þar sem þróun gervigreindar hefur tekið stökk fram á við á umliðnum árum. Og hérna mætti kannski nefna að fyrir þremur vikum gangsetti bandaríska fyrirtækið Google fyrstu skammtatölvuna, og ku sú vél hafa leyst reikningsdæmi, sem tæki öflugustu ofurtölvu veraldar 10.000 ár að leysa, á 180 sekúndum. Gervigreindin gæti með öðrum orðum verið að færast nær okkur en jafnvel bjartsýnustu menn vonuðu, eða þeir svartsýnustu óttuðust. Það eru jú margir tæknifrömuðir og vísindamenn á þeirri skoðun að fyrsta verk gervigreindarinnar, verði hún að veruleika, væri að betrumbæta sjálfa sig með róttækum hætti, mjög hratt, og umbreytast þannig í ofurgreind. Næstfyrsta verkið verður svo að útrýma mannkyninu.
Eins og ég gaf til kynna hér á undan, með því að vísa til skáldsögu Philips K. Dick frá 1968, eru siðferðislegu vandamálin sem McEwan fæst við ekki beinlínis ný af nálinni. Sem myndi ekki skipta máli ef McEwan tækist á við þau með skapandi hætti, sem hann gerir ekki. Það hvernig hið melódramatíska ímyndunarafl hefur tekið yfir skáldskap McEwans í seinni tíð væri reyndar efni í pistil út af fyrir sig. Læt ég hér nægja að nefna að Vélar eins og ég skartar munaðarleysingja, ofbeldisverknaði, óvæntum arfi, glæpamanni, nauðgun, ástarþríhyrningi, myrkri og dularfullri fortíð einnar persónunnar, annarri nauðgun, óvæntri fangelsisvist og svo þeirri óneitanlega jákvæðu hugmynd að Bítlarnir séu enn að gefa út plötur árið 1982. En bara að lesa upp þennan lista þreytir mig hálfpartinn, dálítið eins og skáldsagan. Það sem hún hefur þó til að bera er allt að því ókennileg ritsnilld McEwans, ef skáldsögur væru metnar málsgrein til málsgreinar, væri hann kannski besti höfundur í heimi. Og þessari hlið verksins miðlar Árni Óskarsson af listfengi í þýðingu sinni. Hitt sem lyftir bókinni upp er hvernig hún tekur á áðurnefndri hugmynd um að gervigreindin eigi eftir að útrýma mannkyninu, nokkuð sem loðað hefur við frásagnarlegar birtingarmyndir efnisins allt frá því að Karel Capek skrifaði leikritið sitt um róbótauppreisnina á þriðja áratugnum. Hvað þetta varðar fer skáldsaga McEwans í yndislega óvæntar áttir. Er þetta góð skáldsaga, nei, að mínu mati er Vélar eins og ég dálítið vond skáldsaga. En ætti maður að lesa hana, já, fjandakornið, þótt ekki væri nema bara útaf snúningnum sem er tekinn á útrýmingarmótífinu og svo auðvitað líka til að sjá Alan Turing, sprelllifandi, ganga inn í söguna, eins og hann gerir í síðasta hluta hennar.