Strangar reglur um mengun frá skipum í nokkrum fjörðum í Noregi tóku gildi í byrjun mars. Þær beinast ekki síst að siglingum skemmtiferðaskipa um firðina. Í þessari viku var tilkynnt um fyrstu sektina sem hljóðar upp á 10 milljónir íslenskra króna.

Noregur, ekki síst firðirnir á vesturströndinni eru vinsælir áfangastaðir skemmtiferðaskipa. Norsk stjórnvöld hafa lengi haft áhyggjur af mengun frá þessum skipum. Í nokkurn tíma hafa nýjar reglur um skipaferðir í fjörðunum verið í smíðum. Þær hafa nú litið dagsins ljós og gengu í gildi 1. mars. Þær ná til fimm fjarða sem Norðmenn kalla heimsminjafirðina, þeir eru Nerøyfjörður, Aurlandsfjörður,Geirangerfjörður, Sunnilvsfjörður og loks Tafjörður. Í þessum fjörðum er mikil náttúrufegurð og menningarminjar. Geirangerfjörður og Nerøyfjöður voru settir á heimsminjaskrá UNESCO 2005. Reyndar eru hinir firðirnir líka á lista UNESCO því þeir tengjast Geirnagerfirðir eða Nærøyfirði. Sameiginlega er þetta kallað vestnorska fjarðalandslagið.

Stent að minni mengun fá skipum

Það var norska siglingamálastofnunin sem setti reglurnar eftir ítarlegar umhverfisrannsóknir. Þær sýndu meðal annars að loftmengun í Geirangerfirði getur verið svo slæm stundum að hún er beinlínis hættuleg heilsu manna. Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs fangar nýju reglunum og segir þær mikilvægt skref að mengunarlausum siglingum. Þetta sé líka áfangi í ákvörðun ríkisstjórnarinnar að engin mengun verði frá skipum sem sigla í fjörðunum eftir árið 2026. Siglingamálastofnun hefur fengið það verkefni að þróa þessar reglur áfram og að þær nái í framtíðinni til fleiri fjarða og að reglurnar verðir strangari

Strangari reglur

En um hvað eru nýju mengunarreglurnar? Í stórum dráttum ná þær til strangari krafna um losun brennisteins og köfnunarefnisdíoxíðs. Bann við því að klóaki sé hleypt í sjóinn og einnig neysluvatni og rusli. Nánar er kveðið á um að brennisteinsinnihald í eldsneyti skipa má ekki fara yfir 0,10% og það er gert ráð fyrir að reglur um köfnunarefnisdíoxíð þyngist með tímanum. Það verður líka bannað að brenna sorp um borð í skipunum.

10 milljónir í sekt

Fyrsta sektin sem hljóðar upp á 10 milljónir íslenskra króna var lögð á í þessari viku þegar það kom í ljós að útblástur frá skemmtiferðaskipinu Magellan innihélt 0,17% af brennisteini. Mahellan er 36 ára gamalt skip skráð á Bahamaeyjum. Þetta er söguleg sekt og þykir í hærri kantinum. Magellan hefur líklega komið hingað til lands á síðustu árum. Að minnst kosti er gert ráð fyrir að það komi til Reykjavíkur þrisvar í sumar. Skipið hafði siglt inn í tvo af heimsminjafjörðunum. Það er von á því aftur til  Noregs í þessum mánuði. Yfirvöld hafa lýst því yfir að þá verði farið um borð og rækilega verði gengið úr skugga um að losun frá skipunum standist nýja regluverkið.

Reglur í vinnslu hér

Enn sem komið er eru ekki viðlíka reglur hér eins og settar hafa verið í Noregi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um bann við notkun svartolíu.

Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð. Í aðgerðaáætlun verða meðal annars sett markmið um samgöngur og hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsmanna, orkunýtni í atvinnulífinu, innleiðingu alþjóðlegra samninga um vernd hafsins, græn skref í ríkisrekstri og loftslagssjóð og stefnt að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands.

Loftslagsráð hefur tekið til starfa og í haust var aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kynnt. Þar er talað um bann við notkun svartolíu.

Stefnt er að minnkun á svartolíunotkun við strendur Íslands með breytingum á lögum og/eða reglugerðum með það að markmiði að fasa notkun svartolíu endanlega út. Slíkt er í samræmi við ákvæði í
stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að stefna að því að banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Málið verður skoðað í samhengi við alþjóðaskuldbindingar, svo sem á vettvangi Alþjóða
siglingamálastofnunarinnar (IMO) og Norðurskautsráðsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er stefnt að banni við notkun
svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Skv. nýlegri greinargerð sem Umhverfisstofnun gerði fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið er
snúið að ná fram algjöru banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands þar sem slíkt þarf samþykki IMO. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar sett einhliða reglur um takmarkaðra bann, sem næði til 12
mílna landhelgi eða til hafna og nærsvæða og fjarða. Tillögur þess efnis eru í vinnslu hjá umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun.